North Carolina háskólinn tryggði sér í nótt sinn sjötta titil í háskólaboltanum eftir 71-63 sigur á Gonzaga. Leikurinn var hnífjafn allan leikinn og þrátt fyrir nokkur áhlaup liðanna var munurinn aldrei mikill. 

 

Joel Berry var valinn besti leikmaður keppninnar en hann var með 22 stig og 6 fráköst í leiknum auk hans voru Isahia Hicks og Justin Jackson gríðarlega sterkir. Hjá Gonzaga var Nigel Williams-Goss sterkastur með 15 stig, 9 fráköst og 6 stoðsendingar en stóru leikmenn liðsins þeir Collins og Karnowski voru í miklum villuvandræðum í seinni hálfleik. 

 

Óhætt er að segja að leikurinn hafi ekki staðið undir væntingum þegar kemur að gæðum og skemmtun leiksins en dómarar leiksins hafa verið harðlega gagnrýndir vestanhafs fyrir frammistöðu sína. Ótrúlegt magn af villum voru flautaðar í seinni hálfleik og var skærasta stjarna Gonzaga Zach Collins bókstaflega flautaður úr leik með fimm villur þegar sjö mínútur voru eftir af leiknum. Mikill tími fór í að skoða endursýningar af auglýsum dómum og flæði og hraði leiksins fékk að líða fyrir það. 

 

North Carolina er þriðja liðið í sögunni til að vinna titilinn ári eftir að hafa tapaði úrslitaleiknum en liðið tapaði fyrir Vilanova háskólanum fyrir ári síðan í æsilegum úrslitaleik. Gonzaga aftur á móti voru í fyrsta skipti í úrslitaleiknum og tókst ekki að vinna stóra titilinn í fyrstu tilraun. 

 

Varnarleikur North Carolina í seinni hálfleik tryggði þeim sigurinn en Gonzaga gekk virkilega illa að ná í auðveldar körfur og þeir Hicks og Meeks lokuðu teignum algjörlega. Roy Williams þjálfari liðsins vann sinn þriðja háskólatitil með UNC sem gerir hann að fjórða sigursælasta þjálfara sögunnar í háskólaboltanum. 

 

 

Mynd / NCAA.com