Körfuknattleiksdeild Tindastóls bættist góður liðsstyrkur er hinn bráðskemmtilegi bakvörður, Sigtryggur Arnar Björnsson skrifaði undir samning um að leika með liðinu næsta tímabil. Hann átti gott tímabil með Skallagrími í vetur með 18 stig að meðaltali í leik en hann var einn lykilmanna liðsins. Sigtryggur er 24 ára gamall, fæddur árið 1993 og mælist 180 sm á hæð.

 

„Mér líst mjög vel á að vera kominn aftur á Krókinn og hlakka til komandi tímabils. Það voru nokkur önnur lið búinn að hafa samband við mig en mér leist best á að koma aftur í Tindastól. Ástæðan fyrir því er sú að mér líst mjög vel á bæði liðið og þjálfarann og stemninguna í kringum körfuboltann á Sauðárkróki,“ sagði Sigtryggur Arnar kampakátur í samtali við vefmiðilinn Feyki fyrr í dag. „Ég held að Israel Martin sé einn besti þjálfarinn á landinu og held að við eigum séns á að gera stóra hluti á næsta tímabili.“

 

Þegar sami miðill ræddi við Sefán Jónsson formann körfuboltadeildar fyrr í dag var hann staddur djúpt vestur af Íslandi á svokölluðu Hampiðjutorgi. Hann sagðist koma heim eftir helgi til að ræða við strakana sem léku með Stólunum í vetur. "Maður reynir að halda því sem maður hefur," sagði hann aðspurður um hverjir væru líklegir til að halda áfram næsta tímabil en ljóst sé að Sigtryggur Arnar væri góður fengur fyrir félagið.