Ragnar Örn Bragason hefur ákveðið að söðla um eftir þetta tímabil og yfirgefa Þór Þorlákshöfn eftir tveggja ára veru þar. Á tímabilinu var hann með 7,5 stig og 3,3 fráköst að meðaltali í 26 leikjum. Ragnar sagði frá þessu á Twitter í gær. 

 

Þór hefur síðustu tvö ár komist í úrslitaleik bikarkeppninnar og fallið úr í átta liða úrslitum Dominos deildarinnar. Ragnar er uppalinn hjá ÍR og hefur átt tvö góð ár á Þorlákshöfn. 

 

 

Karfan.is náði á Ragnar í gær til að staðfesta þessar fregnir og fékk viðbrögð við því að hann væri að yfirgefa Þór:

 

Hvað liggur að baki ákvörðuninni að yfirgefa Þór?

 

Samningurinn minn við Þór rann út núna við lok tímabilsins. Strax eftir tímabilið gat ég ekki gefið skýr svör um framhaldið hjá mér af hinum ýmsu ástæðum. Eftir að hafa verið að hugsa mig um með áframhald með Þór kom svo allt í einu í ljós að ekki var óskað eftir kröftum mínum lengur.

 

Tvö góð ár að baki í Þorlákshöfn, er ekki hægt að segja það?

 

Þessi tvö ár með Þór hafa verið mjög lærdómsrík og spennandi. Skemmtilegur hópur og góður þjálfari og tel að ég hef bætt mig bæði sem sóknar- og varnarleikmann. Ég sé ekki eftir því að hafa breytt til fyrir tveimur árum en nú er allt opið og langar mér að sanna mig með öðru liði á næsta tímabili.

 

Hvað tekur nú við hjá þér?  

 

Nú tekur fyrst og fremst að klára skólann og finna lið sem hefur áhuga á að fá mig í sínar raðir. Á meðan það er í gangi er ég bara að undirbúa mig fyrir næsta tímabil.