Ólafsson Ólafur var rólegur í stigaskori í kvöld en það þarf ekkert að útskýra mikilvægi hans og framlag í löngu máli fyrir neinum. Tekinn var púlsinn á honum að leikslokum.

 

Þvílíkur stemmari og þvílík sturlun hérna í kvöld! Hvernig er hægt að halda haus og ætla að reyna að hitta eitthvað ofan í í svona brjálæði??
Ja..ég veit það ekki. Þetta er bara eitthvað sem manni dreymir um að gera. Þetta er bara ógeðslega gaman og eins og við höfum verið að tala um þá eru forréttindi að fá að taka þátt í þessu, sérstaklega núna fyrir fullu húsi og stuð!

Já, þið hafið talað svolítið um það að það séu forréttindi að taka þátt í þessu en þið eruð mikið meira en að taka þátt – þið hefðuð væntanlega aldrei unnið þennan leik nema vegna þess að þið hafið bullandi trú á að geta unnið í oddaleik?
Jájá við höfum trú á verkefninu! Ef við hefðum enga trú á þessu þá væri þetta löngu búið og við farnir bara heim. Við erum bara ógeðslega góðir í körfubolta og með þessa baráttu og þessa fínu vörn þá er þetta bara ógeðslega gaman.

Óli benti svo á að ef Kaninn hjá KR hefði ekki sett þristinn í leik tvö þá væru Grindvíkingar einfaldlega að fagna titlinum þessa stundina. 

Það eru alltaf systurnar ef og hefði en ofan í fór það og við þurftum bara að hafa trú á verkefninu þrátt fyrir allt og þá getur allt gerst.

Einmitt, takk fyrir skemmtunina í kvöld og gangi ykkur vel í oddaleiknum!
Takk fyrir það!

 

Kári Viðarsson