Njarðvík varð í gær Íslandsmeistari kvenna í 8. flokki en úrslit voru leikinn í Njarðvíkinni. Njarðvík sigraði ríkjandi meistaralið Grindavík í úrslitaleiknum 19:13 í hörku leik.  Njarðvík átti fantagóðan vetur og sigruðu í 19 af 20 leikjum sínum og eini tapleikurinn var einmitt gegn sterku liði Grindavíkur sem hefur tekið titilinn stóra síðustu tvö ár. 

 

Grindavík hófu leikinn af krafti og skoruðu fyrstu átta stig leiksins. Hinum megin á vellinum virtist sem Njarðvík væri fyrirmunað að koma boltanum í körfuna og skoruðu þær ekki stig í fyrsta leikhluta og aðeins 2 í öllum fyrri hálfleiknum. Staðan í hálfleik var 8-2 fyrir Grindavík. 

Njarðvík mættu með pressuvörn í farteskinu í þriðja leikhluta og sneru leiknum sér í vil. Unnu leikhlutann 12-4 og leiddu 14-12 fyrir þann fjórða.  Fjórði fór á sama veg og fyrri leikhlutar, harður varnarleikur og ótrúleg óheppni beggja liða við körfuna og fóru leikar 19-13 fyrir Njarðvík og fögnuðu þær innilega í leiks lok sínum fyrsta meistaratitli.

 

Óhætt er að segja að vörnin hafi verið aðalsmerki sigurliðsins því þær fengu mest á sig 17 stig um helgina, frá silfurliði Keflvíkinga. Þjálfarar Njarðvíkur í vetur voru Bylgja Sverris og Jói Kristbjörns.  Karfan.is óskar Njarðvíkingum til lukku með meistaratitilinn og öllum liðum með frábæran vetur en þjálfarar liðanna voru sammála að öll lið tóku gríðarlegum framförum í vetur. 

 

Að skemmtilegri staðreynd þá voru þau systkyn Bylgja Sverrisdóttir og Sverrir Þór Sverrisson að gera lið sín að meisturum í annað skiptið á sama tíma, sömu flokkar, því árið 2005 gerði Bylgja 8. flokk kvenna íslandsmeistara og þjálfaði sama ár Sverrir Þór meistaraflokk kvenna Keflavíkur til titilsins. Nú árið 2017 endurtekur þetta sig með sömu flokka. 

 

Að annari staðreynd þá þjálfaði Jóhannes Kristbjörnsson síðast lið til íslandsmeistaratitils árið 1990 en þá voru í hans liði mæður tveggja leikmanna sem nú urðu meistarar.