Landsliðsmaðurinn Martin Hermannsson var enn eina ferðina valinn leikmaður vikunnar í frönsku B-deildinni eftir frábæra frammistöðu í sigurleik Charleville á toppliði deildarinnar, Bourg Basket 79-69. Martin lauk leik með 20 stig, 7 fráköst og 8 stoðsendingar en þetta er í fjórða skiptið sem Martin hlýtur þessa viðurkenningu.

 

Martin hefur verið að spila frábærlega fyrir franska liðið í vetur og er fjórði stigahæsti leikmaður deildarinnar með 17,3 og sjötti hæsti í deildinni í stoðsendingum með 5,7. Martin er einnig að skjóta mjög vel með 51,7% skotnýtingu og þar af 32,6% í þriggja stiga skotum.

 

Charleville situr í fjórða sæti deildarinnar þegar 8 umferðir eru eftir af deildarkeppninni.