Lykilleikmaður undanúrslitaeinvígis Stjörnunnar og Grindavíkur í Dominos deild karla var valinn Dagur Kár Jónsson. Grindavík kom á óvart og sópaði Stjörnunni úr einvíginu en fyrir tímabilið var Grindavík spáð tíunda sæti deildarinnar en Stjarnan átti að berjast um titilinn. Dagur Kár aftur á móti kom til Grindavíkur eftir að nokkrar umferðir voru búnar að deildinni og hefur heldur betur breytt þessu liði. 

 

Dagur reyndist uppeldisfélagi sínu gríðarlega erfiður í þessu einvígi. Hann og Lewis Clinch báru af og gekk Stjörnunni ekkert að stöðva þessu tvo menn. Dagur var hinsvegar sá leikmaður sem steig upp á mikilvægum augnablikum og sýndi skemmtileg tilþrif á sínum gamla heimavelli. Hann endaði einvígið með 20,7 stig, 4,3 stoðsendingar, 3 fráköst, 5,3 fiskaðar villur og 46% þriggja stiga nýtingu í 24 skotum. 

 

Besti leikur í einvíginu: Líkt og allt lið Grindavíkur þá gekk flest upp hjá Degi í leik þrjú. Hann hitti úr 5 af 7 þriggja stiga skotum sínum, átti fimm stoðsendingar og var prímusmótorinn í liðinu sem gjörsamlega valtaði yfir Stjörnuna í þessum leik þrjú. 

 

Atvik einvígisins: Dagur Kár lauk þriðja leikhluta í fyrsta leiknum með rosalegri flautukörfu frá rúmlega miðju. Kauði þekkir körfurnar vel í Ásgarði og sýndi það rækilega í það skiptið.