Keflavík tók forystuna í undanúrslitaeinvígi liðsins gegn Skallagrím með góðum sigri á heimavelli. Staðan 2-1 fyrir Keflavík eftir leikinn en næsti leikur fer fram næstkomandi mánudag í Borgarnesi. 

 

Umfjöllun um  helstu þætti leiksins má finna hér að neðan:

 

Gangur leiksins:

 

Það voru gestirnir sem byrjuðu betur og settu fyrstu þrjár körfur leiksins en Keflavík gekk bölvanlega að finna körfuna fyrstu fjórar mínúturnar. Eftir það snerist leikurinn við og Keflavík komst yfir og stjórnaði leiknum. 

 

Skallagrímur tók mikið af sóknarfráköstum en tókst illa að nýta sér það til góðs. Bæði lið töpuðu mikið af boltum og voru gæði leiksins satt best að segja af skornum skammti. Keflavík hafði samt yfirhöndina fyrri hálfleikinn þar sem skotnýting liðsins var mun betri. Staðan í hálfleik 26-24 og eins og tölurnar gefa til kynna var varnarleikur liðanna í aðalhlutverki. 

 

Keflavík smellti í lás í þriðja leikhluta og hélt Skallagrím í 10 stigum á þeim tíma. Keflavík hefði með réttu átt að ganga frá leiknum í leikhlutanum en sóknarleikur liðsins var ekki uppá marga fiska og tapaði liðið of mörgum boltum. 

 

Skallagrímur náði litlu áhlaupi í byrjun fjórða leikhluta en svo ekki sögunni meir. Keflavíkur vörnin var einfaldlega uppá sitt besta og Skallagrímur réð ekkert við liðið. Sigur Keflavíkur var á endanum sannfærandi 65-52 en gestirnir settu nokkur ruslastig í lok leiks til að bjarga stigatöflunni örlítið. 

 

 

Tölfræðin lýgur ekki, eða hvað?

 

Skallagrímur var með fleiri fráköst í leiknum en stig og tóku meðal annars 32 sóknarfráköst í leiknum. Það eitt og sér á bara hreinlega að vera nóg til að vinna körfuboltaleiki og það er með hreinum ólíkindum að Skallagrímur hafi ekki unnið leikinn miðað við það. Gestirnir fengu þar af leiðandi 21 stig úr þessum sóknarfráköstum og 10 stig úr vítum. Það þýðir að eingöngu 21 stig eða 10 körfur komu úr beinum sóknaraðgerðum liðsins. 

Keflavík tapaði 27 boltum gegn 21 hjá Skallagrím og gestirnir fengu 24 villur dæmdar á sig en Keflavík 12. Skallagrímur tekur 83 skot á körfuna í leiknum en hittu eingöngu 19 þeirra sem gerir 22% skotnýtingu í leiknum. Keflavík fékk 11 stig frá bekknum sínum gegn fjórum hjá Skallagrím. 

 

Hetjan:

 

Varnarleikur Keflavíkur var algjörlega magnaður í kvöld. Hann skóp þennan sigur frá A-Ö en sóknarleikur liðsins var langt frá því að vera frábær. Arianna Moorer var virkilega öflug  í kvöld með 19 stig, 12 fráköst, 7 stoðsendingar, 12 fiskaðar villur og 4 stolnir boltar. Hún fyllti virkilega vel uppí tölfræðiskýrsluna og sótti körfur þegar Keflavík þurfti á því að halda. 

 

Kjarninn:

 

Staðan 2-1 og getur Keflavík tryggt sér sæti í úrslitaeinvíginu gegn Snæfell með sigri í Borgarnesi næstkomandi mánudagskvöld. Vörn liðsins var sérlega sterk í seinni hálfleik og stór ástæða þess að Skallagrímur fékk varla auðvelda körfu í leiknum. Keflavík er að takast að stjórna hraða leiksins og láta Skallagrím ekki koma sér úr jafnvægi. Í raun er liðið að spila eins og lið fullt af reynslumiklum leikmönnum sem eru að gera þetta í 100. skipti en staðreyndin er önnur. 

 

Það er engu líkara en að Skallagrímskonur hafi ekki einu sinni smávegis gaman því að vera að spila þessa leiki. Gríðarleg orka fer í pirring og rugl í stað þess að njóta þess að spila körfubolta. Þjálfari og leikmenn kepptust við að gagnrýna dómara leiksins eftir leik sem á kannski að einhverju leiti rétt á sér. En þegar liðið tekur 32 sóknarfráköst og tekur 83 skot í leiknum en endar eingöngu með 52 stig á töflunni er vandamálið meira og stærra en dómarar leiksins. Liðið er einfaldlega að verða undir í baráttu á vellinum og virðast þreyttari en andstæðingurinn. Skallagrímur er samt að spila fínan varnarleik heilt yfir og ef þeim tekst að byggja aðeins ofan á það eru hellings möguleikar enn til staðar fyrir liðið. 

 

Framundan er allt eða ekkert leikur fyrir Skallagrím í Borgarnesi næstkomandi mánudagskvöld. Borgnesingar munu án efa fjölmenna á leikinn og von á enn meiri hasar, spennu og hita í þeim leik. 

 

Tölfræði leiksins

 

Myndasafn (Skúli B. Sigurðsson)

 

Viðtöl eftir leik:

 

Sverrir Þór: Aðalatriðið að berjast og sækja sigur

Sigrún Sjöfn: Flautaðar útúr leiknum – Langt frá því að vera sátt við dómgæsluna

 

Umfjöllun / Ólafur Þór Jónsson

Myndir og viðtöl / Skúli B. Sigurðsson