Fimm leikir fóru fram í NBA deildinni í nótt. Enginn leikja næturinnar skipti neinu verulegu máli fyrir lokaniðurstöðu deildarkeppninnar. Nema kannski sigur Atlanta Hawks á Charlotte Hornets, en með honum tryggðu þeir sér fimmta sæti austurdeildarinnar og mæta að öllum líkindum Washington Wizards í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

 

Los Angeles Lakers sigruðu sinn fimmta leik í röð í nótt, en sú sigurganga er sú lengsta sem liðið hefur verið á síðan árið 2013. Þrátt fyrir að enda leiktíð með þriðja versta sigurhlutfall deildarinnar, er liðið þó einum leik fyrir ofan það sem helstu veðbankar höfðu spáð fyrir deildina.

 

Þá sigraði lið Oklahoma City Thunder enn einn jafnan leik, þann annan á jafn mörgum dögum. Í nótt þurfti það þó að vera Victor Oladipo sem kláraði dæmið, þar sem stjörnuleikmaður þeirra, Russell Westbrook, var fjarri góðu gamni.

 

Staðan í deildinni

 

Úrslit næturinnar

 

Charlotte Hornets 76 – 103 Atlanta Hawks

Oklahoma City Thunder 100 – 98 Minnesota Timberwolves

Denver Nuggets 109 – 91 Dallas Mavericks

New Orleans Pelicans 96 – 108 Los Angeles Lakers

Phoenix Suns 104 – 129 Sacramento Kings