Þriðji leikur undanúrslitaeinvígis Keflavíkur og KR fer fram í DHL Höllinni kl. 19:15 í kvöld. Staðan í einvíginu jöfn 1-1, en eftir að KR sigraði fyrsta leikinn kom Keflavík til baka í þeim síðasta og jafnaði það. Við fengum aðstoðarþjálfara Þórs, Baldur Þór Ragnarsson, til þess að rýna aðeins í einvígið.

 

Hvernig finnst þér einvígi KR og Keflavíkur hafa spilast?

Mér finnst bæði lið vera að spila skemmtilegan bolta. KR voru hrikalega flottir í fyrsta leik og var meistarabragur á þeim. Mér fannst þeir halda uppteknum hætti í fyrri hálfleik í leik 2. Hreyfðu boltann vel og vörnin mjög sterk. Keflvíkingar bitu frá sér í seinni hálfleik og Amin Stevens er að spila hrikalega vel. Á sama tíma hættu KR-ingarnir að gera hlutina sem þeir hafa gert vel og fóru kannski að drippla aðeins of mikið á kafla. Þeir fengu samt góð skot og hefðu vel getað klárað leikinn ef þeir hefðu sett eitthvað af þeim niður. Keflavík náði að klára þetta sem kemur mörgum á óvart og verður gaman að fylgjast með framhaldinu.

 

Hvernig sérðu þessa seríu spilast eftir þessa fyrstu tvo leiki?
Ég held að KR vinni næsti tvo leiki og klári þetta 3-1. Næsti leikur á eftir að vera 10 stig plús KR sigur. Leikurinn eftir það fer hinsvegar í overtime þar sem Brynjar eða Jón mun klára þetta fyrir KR

 

Hvað hefur komið þér mest á óvart?
Það kemur mér svoldið á óvart hvað KR-ingar hafa ekkert náð að stoppa Amin Stevens.  Þeir eru með marga sem geta roterað á hann og hann spilar 40 mín. Verð að gefa Amin Stevens credit.  Maðurinn er að sýna gífurlegan styrk og hæfileika. Verður gaman að sjá hvort hann nái að halda þetta út.

 

Hvað þarf KR að gera til þess að eiga möguleika á að klára þetta?
Halda sér við sitt leikplan í vörn og sókn, þá klára þeir dæmið.

 

Hvað þarf Keflavík að gera til þess að eiga möguleika á að klára þetta?
Reyna að berja KR-inga útúr sínu plani með hörku varnarleik. Fá toppleiki frá Amin, Magga, Reggie, Gumma og Hössa. Vonast til þess að KR hitti boltanum illa.

 

Hvernig fer þessi þriðji leikur?

KR vinnur þetta 92-82.