Þá er það ljóst að KR og Grindavík munu berjast um Íslandsmeistaratitilinn í Domino´s-deild karla þessa vertíðina. Þetta verður í fjórða sinn sem þessi félög mætast í úrslitum síðan úrslitakeppnin hóf göngu sína hérlendis. Í öll þrjú skiptin sem liðin hafa mæst hefur KR haft betur!

KR og Grindavík léku fyrst til úrslita árið 2000 og þá hafði Grindavík heimavallarrétt en tapaði 3-1. Árið 2009 buðu þessi tvö félög okkur upp á einhverja mögnuðustu úrslitarimmu sem sögur fara af sem KR vann 3-2 í oddaleik. Í þriðja sinn mættust liðin í úrslitum 2014 og þá vann KR 3-1.

Nú er komið að fjórða úrslitaeinvíginu og það eru KR-ingar sem hafa heimavöllinn og fjórða árið í röð sem KR leikur til úrslita, fjórða árið í röð sem KR er með heimavöllinn.

Úrslitaseríur KR og Grindavíkur

2000: Grindavík 1-3 KR
2009: KR 3-2 Grindavík
2014: KR 3-1 Grindavík

* KR eða Grindavík hafa verið í úrslitum núna sjö ár í röð.
* KR er að leika til úrslita í fimmta sinn á sjö árum og fjórða árið í röð.
* Grindavík er að leika til úrslita í fjórða sinn á sjö árum.

Mynd/ Skúli Sigurðsson – Jón Arnór Stefánsson gerði magnaða körfu fyrir KR gegn Keflavík í kvöld þegar leikurinn var í járnum. Mikið mun mæða á Jóni í úrslitaseríunni gegn Grindavík.