KR sigraði Keflavík með tveimur stigum, 86-84, í fjórða leik undanúrslita Dominos deildar karla. KR er því komið í úrslit, með 3-1 sigur í einvíginu, en þar munu þeir mæta Grindavík.

 

Gangur leiks

KR byrjaði leik kvöldsins betur, voru komnir með 8 stiga forystu strax á fyrstu mínútum leiksins. Keflvíkingar voru því fljótir í gang og taka 13-0 áhlaup til þess ð svara. Þegar að fyrsti leikhlutinn var á enda voru gestirnir þó með forystuna, 20-24. Í öðrum leikhlutanum hitnuðu leikar eilítið á milli Reggie Dupree og Brynjars Þórs Björnssonar, leikurinn langt frá því að fara úr böndunum, en dómarar leiksins héldu vel á spöðunum og kældu þá með tæknivillum. Undir lok hálfleiksins hótaði KR því að stinga af, en Keflavík kom aftur til baka. Þegar að leikmenn héldu til búningsherbergja í hálfleik var staðan 39-42 fyrir gestina.

 

 

Í þessum fyrri hálfleik var Amin Stevens atkvæðamestur fyrir heimamenn með 15 stig, 11 fráköst og 3 stoðsendingar. Á meðan að fyrir gestina var það Darri Hilmarsson sem dróg vagninn með 8 stigum og 3 fráköstum.

 

Á fyrstu mínútum seinni hálfleiksins ná heimamenn svo að jafna leikinn aftur í stöðunni 47-47. Leikurinn svo þaðan og til enda í járnum. Eftir þrjá leikhluta var KR yfir 63-66.

 

Nokkuð var farið að bera á villuvandræðum í herbúðum gestanna fyrir lokaleikhlutann, en þar voru Pavel Ermolinski, PJ Alawoya, Brynjar Þór Björnsson og Kristófer Acox allir með þrjár villur á meðan að hjá heimamönnum var Ágúst Orrason sá eini sem var í vandræðum, eða með þrjár.

 

 

Lokamínúturnar

Leikurinn var nánast jafn allan fjórða leikhlutann. KR þó oftar en ekki skrefinu á undan, Keflavík skrefinu fyrir aftan, að jafna leikinn. Fyrir heimamenn var Amin Stevens betri en enginn, náði í körfur eftir pöntun fyrir sína menn á meðan að fyrir gestina dreifðist álagið meira, aðallega á þá Sigurð Þorvaldsson, Kristófer Acox og Jón Arnór Stefánsson. Erfitt að velja eitthvað eitt atvik hjá KR sem ákvað leikinn. Bæði var “put-back” troðlsa Kristófers Acox (82-84) þegar 30 sekúndur voru eftir og karfa Jóns Arnórs þegar 5 sekúndur voru eftir (84-86) glæsilegar. Verðum þó að hallast að því að varið skot Acox hjá Herði Axel þegar að tíminn var að renna út hafi að lokum skipt mestu máli.

 

 

Breiddin

Keflvíkingar sýndu það svo sannarlega í kvöld hvers megnugir þeir eru. Að aðeins fjórir leikmenn þeirra nái að komast á blað í stigaskorun gegn átta hjá stjörnu prýddu liði KR og að þeir tapi leiknum samt bara með tveimur stigum er hreint ótrúlegt.

 

Reynslan

Bæði í þessum leik sem og í þeim síðasta í þessu einvígi, var leikmaður KR, Sigurður Þorvaldsson, frábær. Einstaklega skilvirkur, með 14 stig á 72% skotnýtingu á aðeins 22 mínútum spiluðum í kvöld. Á hvorugum enda vallarins steig hann feilspor, tók ekkert frá neinum og skilaði nákvæmlega því sem að liðið þurfti.

 

 

Söknuður

Að fá ekki að fylgjast meira með Amin Stevens þetta tímabilið er leiðinlegt. Var gjörsamlega sturlaður í leik kvöldsins, skilaði 39 stigum, tók 19 fráköst og gaf 5 stoðsendingar. Sem er hreint stórkostlegt miðað við gæði þeirra varnarmanna sem að voru að rótera á honum. Kannski ekki úr vegi að besti leikmaður deildarinnar víki fyrir besta liði deildarinnar til þessa. Breytir því ekki þó, að missirinn er nokkur.

 

Tölfræðin lýgur ekki

Leikurinn í kvöld var hin besta skemmtun. Einstaklega jafn og spennandi. Í heildina skiptu liðin í þrettán skipti um forystu og í átta skipti var leikurinn jafn.

 

 

Hetjan

Sjö leikmenn KR skoruðu 8 stig eða fleiri í leik kvöldsins, en enginn fleiri en 16. Það verður að teljast merki um hversu mikil breidd og gæði séu þar til staðar. Til þess að taka einhvern þeirra út sem “hetju” leiksins, þá skulum við segja að það hafi verið Kristófer Acox. Bæði fyrir þessa glæsilegu “put-back” troðslu þegar innan við mínúta var eftir og svo varða skotið sem að kláraði leikinn fyrir þá. Tvö risastór atriði sem að KR vinnur þennan leik ekki án.

 

Tölfræði leiks

Myndasafn 1 (SBS)

Myndasafn 2 (Davíð Eldur)

 

Umfjöllun, viðtöl / Davíð Eldur & Ólafur Þór

Myndir / SBS

 

Viðtöl: