Í augum Steve Kerr þjálfara Golden State Warriors eru verðlaunin „besti sjötti maðurinn“ í NBA aðeins verðlaun fyrir leikmenn sem koma með hvað flest stig af bekknum. Kerr hefur tjáð sig opinberlega um að svo þurfi ekki endilega að vera.

Fyrir leik Houston og Golden State sagði Kerr að hann væri hugsi yfir þessum verðlaunum. „En ef þið lítið á besta sjötta manninn með tilliti til sigra þá er enginn betri en Andre Iguodala,“ sagði Kerr.

Kerr telur að þeir sem kjósa ættu að íhuga alvarlega að kjósa Iguodala jafnvel þó hann yrði sá besti sjötti leikmaður deildarinnar til þess að vera með lægsta stigaskorið af öllum þeim sem áður hafa verið valdir. Þessa dagana er Iguodala með 7,3 stig og 4 stoðsendingar að meðaltali í leik.

„Hann er eins og byrjunarliðsmaður fyrir okkur. Hann hefur verið varaleikstjórnandi og núna er hann vara kraftframherji. Hann dekkar besta leikmann andstæðinganna á hverju kvöldi, Kawhi Leonard eða James Harden. Hann kemur inn og fer beint í að dekka bestu leikmennina, þessi gæji er ótrúlegur. En fólk mun líta á tölfræðina og benda á að hann sé bara með sex eða sjö stig að meðaltali í leik. Þeir sem sjá um kjörið munu finna einhvern með um 17 stig að meðaltali í leik og hugsa með sér, ég ætla að kjósa bara þennan.“