Keflavík sigraði KR, 81-74, í öðrum leik undanúrslita Dominos deildar karla. Einvígið því jafnt, 1-1, en næsti leikur er komandi föstudag í DHL Höllinni.

 

Fyrir leik

KR fékk góðan liðsauka fyrir þennan leik í A-landsliðsmanninum Kristófer Acox. Reyndar misstu þeir út Snorra Hrafnkelsson í síðasta leik. En þó Snorri sé virkilega hæfileikaríkur leikmaður, voru flestir á því að þarna væri um bætingu á annars frábærum leikmannahóp þeirra að ræða. Kristófer átti fína innkomu í þessum leik. Klárt er að leikmaðurinn er í gífurlegu formi, en Keflavík virtist á stundum ekki hafa hugmynd um það hvernig þeir ættu að eiga við hann á varnarhelmingi sínum. Klárlega er hann leikmaður sem á eftir að komast betur í takt við það sem KR er að gera og verður áhugavert að sjá hvort að þarna sé ekki á ferðinni einn af betri leikmönnum deildarinnar.

 

 

Ógnarsterkir

Það eru líklegast fá lið í sögu íslensks körfubolta sem hafa verið jafn vel mönnuð og þetta lið KR. Bæði eru þeir með leikmenn á besta aldri í Brynjari Þór, Darra, Kristófer og Pavel og góða eldri leikmenn í þeim Sigurði Þorvaldssyni og Jóni Arnóri. Ofan á þetta eru þeir svo með einn efnilegasta yngri leikmann landsins í Þóri Guðmundi og erlendan leikmann sem smellur eins og flís við rass við liðið í Philip Alawoya. Reynslan og hæfileikarnir í þessum hóp eru gríðarlegir. Svo miklir að einhverjir gerðu því í skóna að jafnvel færi þetta lið bara í gegnum úrslitakeppnina án þess að tapa einum einasta leik.

 

 

Gangur leiks

Heimamenn byrjuðu þennan leik nokkuð vel. Eftir fyrsta leikhluta leiddu þeir 26-21. Í upphafi annars leikhluta gefa gestirnir þó aðeins í. Eru búnir að komast yfir þegar rétt rúmar 2 mínútur voru liðnar af hlutanum, 26-28. Í heildina var þessi byrjun KR á hlutanum 10-0, en það var aðallega varnarlega sem sú vinna var unnin, ásamt því að Brynjar Þór skoraði 8 þessara 10 stiga þeirra á kaflanum. Keflavík nær þó aðeins áttum og þegar að liðin halda til búningsherbergja er staðan 37-46 fyrir gestina.

 

 

Atkvæðamestur fyrir heimamenn í hálfleik var Amin Stevens með 15 stig, 8 fráköst og 2 stoðsendingar. Fyrir gestina var það áðurnefndur Brynjar Þór Björnsson sem dróg vagninn með 12 stigum, 3 fráköstum og 3 stoðsendingum.

 

 

Ljóst var að ætluðu Keflvíkingar sér eitthvað út úr þessum leik, þá þyrftu þeir að hefja seinni hálfleikinn af krafti. KR liðið sýnt það í mörg skipti í vetur hversu sterkir þeir eru að klára leiki og halda forystu sinni, komist þeir í hana. Heimamenn gerðu það einmitt, byrjuðu á að skora fyrstu 9 stig hálfleiksins og jafna leikinn í stöðunni 46-46. Slaka þó aðeins á í lok hlutans og eru 5 stigum undir fyrir lokaleikhlutann, 60-65.

 

Lokamínúturnar

Keflavík byrjaði fjórða leikhlutann miklu betur en gestirnir. Ná muninum niður og komast loks yfir á fyrstu þrem mínútum hlutans í stöðunni 68-67. KR voru á þessum kafla mikið að láta dómarann fara í taugarnar á sér, uppskera nokkrar tæknivillur og ásetning að launum. Afskaplega lítil gleði á þeim bænum um þetta leyti leiksins. Vissulega alveg hægt að færa rök hingað og þangað með hvort einhverjir dómar hafi verið réttir og ekki. Það breytir því ekki að gestirnir létu þetta svo fara í taugarnar á sér að þeir gjörsamlega misstu hausinn. Keflavík gengur á lagið og er með forystuna út leikinn. Þegar innan við mínúta er eftir, í stöðunni 76-74, fær KR í nokkur skipti möguleika á að jafna eða komast yfir. Öll skot þeirra, frá Darra, Brynjari og Jóni Arnóri, fara forgörðum. Að lokum klárar Keflavík leikinn af gjafalínunni, 81-74.

 

Tölfæðin lýgur ekki

Keflavík leiddi í flestum tölfræðiþáttum. Miðað við síðasta leik (þar sem KR skaut boltanum vel úr djúpinu) er kannski helst að bera saman þriggja stiga nýtingu liðanna. Keflavík var 7/24 eða í um 29% nýtingu á meðan að KR hitti úr aðeins 4/24 og var með um 16% nýtingu. Sérstaklega dýrkeypt skotin þeirra sem geiguðu á síðustu mínútum leiksins.

 

 

Varnarliðið Keflavík

Grunnurinn að góðum sigri Keflavíkur var lagður með frábærum varnarleik í seinni hálfleiknum. Leikmenn eins og Guðmundur Jónsson, Hörður Axel Vilhjálmsson og Reggie Dupree sýndu allir að þeir, sé sá gállinn á þeim, einhverjir mestu keppnismenn deildarinnar á þeim enda vallarins. Leyfðu stjörnuprýddu liði KR aðeins að skora 28 stig í seinni hálfleiknum. Sem er afrek útaf fyrir sig.

 

Framhaldið

Þetta var allt annað Keflavíkurlið en mætti til leiks í fyrsta leik einvígissins. Spiluðu (allir 7) af mikilli áræðni allan leikinn. Voru þolinmóðir sóknarlega og harðir af sér varnarlega. Hvort þeir komist eitthvað lengra í þessu einvígi er þó óvíst. Ljóst er að mikil pressa er á fáum leikmönnum og lítið má útaf bregða til þess að hlutirnir fari út um gluggan hjá þeim þess vegna. Að því sögðu, þá eru fleiri dagar á milli leikja nú og þessir 6-7 sem spiluðu þennan leik eru ekki enn farnir að sýna of mikla þreytu. Svo möguleikinn á að þessi sería haldi áfram svona er alveg fyrir hendi. 

 

 

Hetjan

Amin Khalil Stevens var frábær í annars góðu Keflavíkurliði í kvöld. Skoraði 36 stig, tók 16 fráköst og gaf 4 stoðsendingar á þeim 40 mínútum sem hann spilaði.

 

Tölfræði

Myndasafn

 

Umfjöllun / Davíð Eldur

Myndir, viðtöl / SBS

 

Viðtöl