Keflavík tryggði sæti í úrslitaeinvíginu gegn Snæfell með sigri á Skallagrím í oddaleik liðanna í undanúrslitaeinvígis Dominos deildar kvenna. Eftir jafnan fyrri hálfleik stakk Keflavík af í byrjun seinni hálfleiks. Þrátt fyrir tilraun Skallagríms til að komast aftur inní leikinn í lokin þá átti Keflavík meiri orku að lokum og unnu sanngjarnan 80-64 sigur. 

 

Fyrir leik: 

 

Staðan í einvíginu var 2-2 og því um hreinan úrslitaleik að ræða um sæti í úrslitaeinvígi Dominos deildar kvenna gegn Snæfell. Skallagrímur jafnaði einvígið í síðasta leik í Borgarnesi en hitinn og spennan hefur verið mikil í öllum leikjum einvígisins og allar líkur á að svipað væri uppá teningnum í kvöld. Sömu lið mættust einnig í úrslitaleik bikarkeppninnar fyrr í vetur þar sem Keflavík vann og lyfti bikarnum. Í kvöld var það því að sigra eða fara í sumarfrí fyrir bæði lið. 

 

 

Gangur leiksins:

 

Leikurinn fór fjörlega af stað og varnarleikurinn sem einkennir liðin var í aukahlutverki. Mikið var skorað og munurinn aldrei meiri en fjögur stig í fyrsta leikfjórðung. Skallagrímskonur virtust vera betra liðið í fyrsta leikhluta þar sem liðið sótti mikið af sóknarfráköstum og bjuggu sér til auðveldar körfur. Yfirburðirnir töldu hinsvegar ekki á réttum stað: á sjálfri stigatöflunni því að lokum fyrsta leikhluta var staðan jöfn 22-22.  

 

Svipað var uppá teningnum í öðrum fjórðung. Það var á lokamínútu hálfleiksins sem Keflavík setti sex stig áhlaup á Skallagrím og tókst að koma muninum í átta stig 48-40. Fyrri hálfleikur var fríðarlega skemmtilegur, mikið var skorað og gæðin í sóknarleik liðanna mikil. 

 

Keflavík náði þrettán stiga forystu strax í seinni hálfleik með tveimur þriggja stiga körfum frá Ernu Hákonardóttur en vörn liðsins hertist og hraðinn í leiknum jókst. Vörn Keflavíkur mætti heldur betur til leiks í þriðja leikhluta, þær gáfu Skallagrím ekki neitt frítt og fóru gestirnir fljótlega að missa alla trú á sínum skotum og Keflavík bætti í forystuna hægt og bítandi. 

 

Skallagrímur hóf lokafjórðunginn af krafti og tókst að koma muninum niður í átta stig um miðbik hans. Leikurinn sem virtist vera svo gott sem búinn í byrjun leikhlutast varð allt í einu spennandi og stemmningin með gestunum. Ákvarðanatökur, agi og stjórn á leiknum reið baggamun á lokamínútunum. Keflavík tók einfaldlega skynsamari ákvarðanir í lokin sem tryggði 80-64 sigur í leiknum og einvíginu að lokum. 

 

 

Hetjan:

 

Arianna Moorer var að vanda gríðarlega sterk fyrir Keflavík. Hún var með 27 stig, 5 stoðsendingar, 8 fráköst og 11 fiskaðar villur í leiknum. Tuttugu stig hennar komu í byrjun leiks þegar illa gekk hjá Keflavík að loka á Skallagrím. Á þeim tímapunkti hélt Arianna þeim inní leiknum með frábærum sóknarleik. Það er einnig erfitt að nefna ekki þátt Ernu Hákonardóttur í þessum leik, hún endaði með 6 þriggja stiga körfur í 9 tilraunum og allar á mikilvægum augnablikum. Eins og alltaf er það þó liðsheild Keflavíkur sem vinnur leiki, ekkert lið í Dominos deildunum spilar jafn agaðan liðsbolta og það er að skapa þennan árangur liðsins. 

 

 

Kjarninn

 

Keflavík átti að lokum einfaldlega meira bensín á tanknum og voru einbeittari á lokakaflanum. Aftur fór alltof mikil orka í pirring hjá Skallagrím útí dómara og annað. Hvernig Manuel Rodriques brást við leikhléi Sverris undir lok leiks var í versta falli hlægilegt þar sem hann tók uppá nákvæmlega sama athæfi í leiknum á undan. „Body language“ liðsins við mótlæti var ekki nægilega gott og hefði liðið mátt vera andlega sterkari á stórum punktum leiksins. Keflavík aftur á móti spilaði vel á sínum styrkleikum í dag og gerðu frábærlega að loka einvíginu. Vörnin var ekki frábær meirihluta leiksins en hún var gríðarlega sterk á réttum augnablikum. Keflavíkurstúlkurnar voru brosandi frá því í upphitun og höfðu það greinilega að leiðarljósi í kvöld að njóta þess að spila þennan leik. 

 

Skallagrímur getur gengið með bakið beint frá þessu tímabili. Liðið er nýliðar í efstu deild og komast í undanúrslit í deild og úrslitaleik bikarsins er flottur árangur. Vonandi fyrir félagið verður hægt að byggja ofan á þetta tímabil og bæta í. Leikmannakjarni Skallagríms er sterkur og ef þeim tekst að halda í hann og bæta við breidd verður liðið enn erfiðara viðureignar á næsta tímabili. 

 

Hvað er hægt að bæta við um þetta Keflavíkurlið? Liðið er fullt af mjög ungum leikmönnum sem eru að spila algjörlega frábærlega. Liðið hefur þrátt fyrir reynsluleysi aldrei sýnt það í verki og stigið upp í stórum leikjum líkt og leikmenn sem hafa leikið í þessari stöðu í fjölda mörg ár. Niðurstaðan er sú að Keflavík er komið í úrslitaeinvígið gegn Snæfell sem hefst næstkomandi mánudag. Liðinu var fyrir tímabilið spáð sjötta sæti deildarinnar en er með bikarmeistaratitil á bakinu og eiga nú möguleika á að vinna tvöfalt þetta tímabilið. 

 

Tölfræði leiksins

Myndasafn (Væntanlegt)

 

Viðtöl eftir leik: 

 

Erna: Eina sem mig langaði í var sigur

Sverrir Þór: Við viljum meira

Manuel: Spiluðum bara 32 mínútur á sama leveli og Keflavík

 

Umfjöllun og viðtöl / Ólafur Þór Jónsson

Myndir / Skúli B. Sigurðsson