Komið er á hreint að Jón Axel Guðmundsson mun ekki skjótast inn í lið Grindavíkur fyrir úrslitaseríuna gegn KR. Jón Axel er liðsmaður hjá Davidson háskólanum sem leikur í 1. deild NCAA deildarinnar. Hann lauk sínu fyrsta tímabili nýverið með Davidson þar sem hann kom sér rækilega fyrir sem byrjunarliðsmaður.

Eins og glöggir hafa tekið eftir leikur Kristófer Acox nú með KR en eðlismunur hans og Jóns er sá að Kristófer er að ljúka námi við Furman háskólann og hefur þegar lokið sínu tímabili þar. Jón Axel á þrjú ár eftir hjá Davidson og víðfrægt er hve mikið reglufargan er við að glíma hjá NCAA.

Af þeim sökum mun Jón Axel ekki freista þess að spila með Grindavík í úrslitum eða eins og hann komst að orði við Karfan.is: „Ég vil ekki fórna ferlinum hjá Davidson fyrir eina úrslitaseríu. Ef ég væri að útskrifast eins og Kristófer myndi ég klárlega koma og spila en ég á þrjú ár eftir svo þetta eru nokkuð frábrugðnar aðstæður hjá okkur.“

KR-ingar anda eflaust léttar við þessi tíðindi, við fáum engu að síður brakandi úrslitarimmu og í fjórða sinn sem KR og Grindavík munu leika til úrslita um titilinn. Úrslitaserían hefst þann 18. apríl næstkomandi.