Á morgun munu Þór Akureyri og Stjarnan mætast í úrslitaleik 10. flokks drengja (fæddir 2001) á Scania Cup í Svíþjóð, en mótið er óopinbert norðurlandmót félagsliða í körfubolta. Þór Akureyri sigraði Skuru IF í dag í undanúrslitum með  80 stigum gegn 56 á meðan að Stjarnan hafði Horsens IC með 74 stigum gegn 71. Merkisdagur í langri sögu Íslands á mótinu þar sem að þetta mun vera í fyrsta skipti sem að tvö íslensk lið mætast í úrslitaleik.

 

Þessi tvö tilteknu lið eru þó ekki óvön því að mætast í úrslitaleikjum, en síðast léku þau til úrslita um Maltbikarinn í febrúar. Þar, eftir frábæra byrjun Þórsara, voru það Garðbæingar sem tóku öll völd á vellinum og lönduðu bikarmeistaratitlinum eftir frábæran seinni hálfleik, lokatölur 59-68. Þór á því harma að hefna og er aldrei að vita nema þeir nái að rétta sinn hlut á morgun.

 

Leikurinn er kl. 11:45 að sænskum tíma á morgun, en frekari upplýsingr um mótið er að finna hér.

 

Einnig viljum við benda á að lið Stjörnunnar mun vera með Snapchat aðgang Karfan.is á morgun, bæði fyrir og eftir þennan úrslitaleik.