Nemendur við Háskólann í Reykjavík vinna að því að koma á laggirnar draumaliðsdeild fyrir Dominos deildirnar. Fimm nemendur í áfanganum Nýsköpun og stofnun fyrirtækja fengu þá hugmynd að vinna að þessu verkefni í áfanganum. 

 

Að sögn þeirra spratt hugmyndin upp frá því að hópmeðlimir hafa tekið eftir því að áhugi á Íslenskum körfubolta væri á mikillri uppleið þar sem umfjöllun og áhorf væru sífellt að aukast. Nokkrir meðlimir hópsins sögðust nota draumaliðsdeild eyjabita sem er draumaliðsdeild fyrir Pepsi deildina í knattspyrnu á Íslandi þar sem nokkur þúsund meðlimir eru skráðir. Hópmeðlimir furðuðu sig á því að ekki væri til slík deild fyrir íslenskan körfubolta þar sem áhuginn er aukast. Hópurinn trúir því að hugmynd sem þessi geti vakið áhuga á Íslandi. 

 

Draumaliðsdeild er gríðarlega vinsælt fyrirbæri um allan heim og sérstaklega í Bandaríkjunum í kringum NBA og NFL. Þar velja notendur sín lið út frá fyrirfram gefnum fyrirvörum. Þátttakendur safna stigum út frá árangri leikmanna sem þeir velja í sín lið og keppa svo við aðra notendur í stigasöfnun.

Hægt er að stofna deildir milli vina en allir notendur sem skrá sig í deildina fara í eina stóra deild þar sem sigurvegari gæti unnið til verðlauna í lok tímabils. 

 

KKÍ og Dominos settu svipaðan leik í gang árið 2012 fyrir tímabilið en sá leikur náði aldrei flugi eða festu hér á landi. 

 

Háskólanemarnir eru nú samhliða áfanganum að skoða áhuga á deild eins og þessari. Hluti af því er að hafa samband við hugsanlega samstarfsaðila og kanna áhuga væntanlegra notenda. Könnun um áhuga var því sett af stað og skorum við á sem flesta að taka þátt. 

 

Taka má þátt í könnun um draumaliðsdeildina hér

 

Spennandi verður að fylgjast með framvindu hugmyndarinnar á næstu vikum en mikill hugur er í hópnum að sögn Sverris Bartolozzi hagfræðinema við HR. Auk hans eru í hópnum: Auður Bergþórsdóttir laganemi, Fanney Andrea Helgadóttir Möller verkfræðinemi, Jóhann Ingi Guðbergsson sálfræðinemi og Jón Þór Guðjónsson tölvunarfræðinemi.