Stjörnumenn tóku á móti Grindavík í þriðja leik liðanna í undanúrslitum Domino’s deildar karla í dag. Grindvíkingar höfðu unnið örugga sigra í fyrri tveimur viðureignum einvígisins og gátu því tryggt sér sæti í úrslitaeinvíginu með sigri, en Stjörnumenn þurftu nauðsynlega á sigri að halda. Skemmst er frá því að segja að Grindvíkingar algerlega pökkuðu vonlausu liði Garðbæinga saman í leiknum og unnu 35 stiga sigur, 104-69, í leik sem var aldrei spennandi. Grindvíkingar rifu því sópinn á loft og unnu einvígið gegn Stjörnumönnum 3-0, en hver einn og einasti sigur Grindavíkur í einvíginu var virkilega öruggur og óhætt að segja að þeir séu vel að því komnir að fara í úrslit.

 

Lykillinn

Það er óþarfi að fjölyrða um hvað skóp 35 stiga sigur Grindavíkur í dag. Gestirnir voru einfaldlega mörgum ljósárum fyrir ofan Stjörnuna í öllum þáttum körfuboltans. Sjálfstraustið skein úr andliti hvers einasta leikmanns Grindavíkur á meðan ekkert gekk upp hjá heimamönnum, sem áttu allir sem einn hörmulegan dag.  Þaulreyndir leikmenn heimamanna vissu hreinlega ekki í hvora löppina þeir áttu að standa á ögurstundu og því fór sem fór fyrir Stjörnumenn.

 

Hetjan

Það er erfitt að velja hetju úr liði Grindavíkur því hver einn og einasti leikmaður átti frábæran dag. Ómar Örn Sævarsson splaði hins vegar stórkostlega vörn gegn Hlyni Bæringssyni alla seríuna og fær nafnbótina að þessu sinni.

 

 

Tölfræðin

3-0, þetta er ekki flókið. Sópurinn á loft og Grindavík komnir í úrslit í fyrsta sinn síðan 2014.

 

Framhaldið

Grindavík mætir annað hvort KR eða Keflavík í úrslitaeinvíginu. Stjörnumenn eru hins vegar komnir í verðskuldað sumarfrí.

 

Tölfræði leiksins

Myndasafn (Bára Dröfn)

 

 

Viðtöl eftir leik: 

 

Hrafn: Odunsi var dragbýtur á liðinu
Óli Óla: Erum bara ógeðslega góðir í körfubolta
Jóhann Þór: Þetta var bara vitleysa í seinni hálfleik
Þorsteinn: Þið megið tryggja þennan sokk mjög vel

 

Umfjöllun / Elías Karl Guðmundsson

Viðtöl / Ólafur Þór Jónsson

Myndir / Bára Dröfn