Fyrsti leikur úrslitaeinvígis Snæfells og Keflavíkur er í Stykkishólmi kl. 20:00 í kvöld. Fyrir þann leik fer fram fyrsti leikur í einvígi KR og Grindavíkur í DHL-höllinni. Við heyrðum í Herði Unnsteinssyni sem hafði nýlokið leik sem þjálfari á Scania Cup en hann þjálfar lið Sandvika en hann var einnig þjálfari meistaraflokks KR í Dominos deild kvenna fyrir nokkrum árum. Hörður er spámaður mikill og við fengum hann til að spá fyrir um einvígin : 

 

KR – Grindavík

 

Spilamennska Grindavíkur í úrslitakeppninni hefur verið til mikillrar fyrirmyndar og eiga leikmenn og þjálfarar liðsins stórt hrós skilið. Þessi undanúrslita sería gegn Stjörnunni er með betri frammistöðum sem ég hef séð lengi! Hungrið í leikmönnum liðsins var svo gríðarlegt, ef þeir ná að halda því hugarfari inn í úrslitaseríuna þá fáum við vafalítið hörkuleiki. KR eru hins vegar einu númeri of stórir að ég tel, gæði innan þeirra herbúða eru of mikil og ég tel að þeir vinni þetta einvígi 3-1. Þeir klára þetta á útivelli í Grindavík fimmtudaginn 27. apríl, á sama stað og Finnur tók fyrsta titilinn 2014, sælla minninga. Það er stórkoslega vanmetið afrek að ná titlinum fjórða árið í röð, að ná að halda hungrinu innan þessa kjarna fjögur ár í röð er eitthvað sem getur ekki verið einfalt verk og fyrir það eiga Finnur og Skúli mikið hrós skilið. Sniðugar breytingar á leikmannahópnum fyrir tímabilið og í úrslitakeppninni, að fá inn Jón, Sigga og svo Kristó var algjört lykilatriði. Þar fara gæðaleikmenn svangir í titil sem mun fleyta KR yfir línuna enn eitt tímabilið.

 

Snæfell – Keflavík

 

Ég held áfram að tala um hungur og innri motivation leikmanna. Hjá Snæfell er sami kjarni leikmann að eltast við titilinn fjórða árið í röð. Ólíkt KR er enginn íslenskur leikmaður hjá Snæfell sem ekki hefur verið með þeim síðustu ár. Keflavíkurstelpur hafa verið stórkostlegar í vetur, og Sverrir eins og honum einum er lagið hefur lagt ofuráherslu á varnarleik liðsins sem hefur verið í hæsta gæðaflokki. Sem Borgnesingur vonaðist ég eftir Vesturlandsslag í úrslitum og taldi að reynsla Skallagrímsstelpna myndi fleyta þeim í úrslit, en frammistaða Keflavíkur í oddaleiknum sannfærði mig um það að þær eru tilbúnar til að taka titilinn. Glugginn þeirra er núna og ég held þær taki Snæfell í oddaleik í Hólminum. Þær munu keyra upp hraðann gegnum seríuna og það í samblöndu við sterkan varnarleik á lykilleikmenn Snæfell mun gera þær að Islandsmeisturum tel ég. Þetta verður hörkusería!