Hrein úrslitaleikur um sæti í Dominos deild karla fer fram í kvöld kl 18:00 er Valsmenn taka á móti Hamri í Valshöllinni. Liðin hafa leikið fjórum sinnum í einvíginu og unnið sitthvora tvo leikina. 

 

Við fengum Egil Egilsson núverandi leikmann Fjölnis í 1. deildinni til að kíkja í spádómskúluna sína og segja okkur við hverju væri að búast í þessum oddaleik liðanna. Hann spáir Hamri sigri og meðfylgjandi var þessi stórskemmtilegi spádómur: 

 

Þetta úrslitaeinvígi hefur mikil og góð skemmtun hingað til og sé ég ekki fram á að það breytist í kvöld. Leikurinn er sýndur í beinni í sjónvarpi allra landsmanna sem er frábær auglýsing fyrir körfuboltann (góður og gildur frasi).

 

Til þess að Valur vinni leikinn þurfa Magnús Bracey og Úrald Konungur að eiga góðan leik. Síðustu tveir leikir hafa ekkert verið sérstakir hjá Magnúsi en á sama tíma hefur Úrald verið svakalegur. Þeir eru lykillinn að sigri Vals.

 

Til þess að Hamar vinni leikinn þurfa menn eins og Rúnar, Örn og Erlendur að hitta á góðan dag og jafnvel þyrfti Oddur Ólafs að láta finna svolítið fyrir sér. Chris Woods verður með sín 30 stig, 15 fráköst og 0 villur fengnar. Engar áhyggjur af því.

 

Það er eitthvað sem segir mér að Hamar vinni þennan leik í kvöld. Þeir geta gulltryggt þetta með því að spila smá 2-3 svæði og efast ég ekki um að Pétur Ingvars geri það. Þó svo að Valsarar séu á heimavelli þá er það ekki að fara að hjálpa þeim. Það verða líklega töluvert fleiri Hvergerðingar í stúkunni og það mun hjálpa Hamarsmönnum.

 

Lokatölur: Valur 81 – 88 Hamar

 

Leikur kvöldsins hefst klukkan 18:00 og er í beinni útsendingu á Rúv2. Hvort Egill hefur rétt fyrir sér kemur í ljós en ef litið er til fyrri leikja liðanna er ljóst að framundan er stórskemmtilegur leikur og allar líkur á háspennu lífshættu.