Karfan.is ræddi við Daníel Guðna Guðmundsson þjálfara Njarðvíkur og framkvæmdastjóra hjá Heilbrig hugarfar fyrir aðra undanúrslitaviðureign Keflavíkur og KR sem fram fer í TM-Höllinni í Reykjanesbæ í kvöld. Daníel telur að KR eigi aðeins eftir að spila fimm leiki þetta tímabilið!

Þessi leikur er einfaldlega að duga eða drepast fyrir Keflavík. Þeir verða allir sem einn að eiga toppdag í vörn og sókn til að ná sigri í kvöld. Það er alltaf erfitt að fara í Keflavík og ná í 2 stig, láttu mig þekkja það, en ég tel að KR-ingar nái í sigur í kvöld.

Súrt fyrir KR að missa Snorra út en gott að fá besta framherja landsins inn. Ótrúlegur fengur fyrir KR sem var nú fyrir með einn best mannaða hóp landsins áður en Kristófer kom til þeirra.

Keflavík verður að finna einhverjar lausnir gegn góðri vörn KR þar sem þeirra áherslur eru að gera virkilega vel á þann leikmann sem býr til allt fyrir Keflavík. Ef ekki, þá verður virkilega erfitt fyrir nágranna mína.

Hörður og Amin eru auðvitað lyklar fyrir heimamenn. Hörður átti erfitt uppdráttar í síðasta leik, en hann er klár í kvöld. Maggi Trausta verður að eiga toppleik en hann er afar fjölhæfur framherji sem er búinn að standa sig gífurlega vel. Aðrir leikmenn Kef verða að stíga upp, auðvitað, og veit ég fyrir víst að þeir eru klárir að taka slaginn gegn KR í kvöld.

Keflavík eru alltaf hættulegir í Keflavík. KR eru auðvitað með gæði í sínum hóp sem sést ekki á hverju ári, svo ekki sé minnst á þjálfarateymið. Ef einhver á "off" dag, þá er alltaf einhver annar sem á frábæran leik. Ég gæti haldið langa tölu um KR liðið en varnar- og sóknarlega bera þeir höfuð og jafnvel herðar yfir flest lið í deildinni.

Ég hlakka til að fylgjast með leiknum í kvöld og óska ég þess sem körfuknattleiksunnandi að nágrannar mínir taki leikinn í kvöld, svo við fáum nú fleiri leiki til að fylgjast með í framhaldinu. Ég tel þó að KR eigi aðeins eftir að spila 5 leiki þetta tímabilið.