Arnar Guðjónsson tryggði sínu liði í Svendborg Rabbits þriðja sæti í Dönsku úrvalsdeildinni eftir sigur í bronsleik mótsins. Svendborg var sópað út í undanúrslitum gegn Bakken Bears sem hefur verið gríðarlega sterkt lið síðustu ár í deildinni. Hefðin er að leikið er um þriðja sæti í deildinni í Danmörku og mætti Svendborg liði SISU frá Kaupmannahöfn. 

 

Svendborg vann góðan sigur 87-72 og því bronsið þeirra. Arnar sem einnig er aðstoðarþjálfari íslenska landsliðsins stýrði þar með liðinu til sinna fyrstu verðlauna í fimm ár og var mikið fagnað að leik loknum líkt og sjá má á myndbandi hér að neðan. 

 

Axel Kárason lék sinn síðasta leik fyrir liðið og skilaði sex stigum og fimm fráköstum á 23 mínútum. Axel er líkt og komið hefur fram á heimleið en hann samdi við Tindastól í síðustu viku. Hinn eftirminnilegi Njarðvíkingur Stefan Bonneau leikur einnig með Svendborg og endaði hann með 18 stig, 3 fráköst og 3 stoðsendingar fyrir liðið.