Fyrsti leikur úrslitaeinvígis Snæfells og Keflavíkur er í Stykkishólmi kl. 20:00 í kvöld. Liðin enduðu jöfn að stigum eftir deildarkeppnina, þar sem að Snæfell hafði þó sigur á deildarmeistaratitlinum vegna innbyrðisviðureigna, 3-1. Í þessum þremur sigurleikjum var munur á liðunum aldrei meiri en 7 stig og því má gera ráð fyrir skemmtilegu og spennandi einvígi. Við heyrðum í þjálfara Þórs Akureyri, Benedikt Guðmundssyni og fengum hans spá fyrir einvígið.

 

Hvernig líst þér á einvígið?
Mér líst virkilega vel á þetta einvígi. Þetta eru tvö skemmtilegustu liðin og bæði lið spila góðan og skemmtilegan bolta. Þessi sería á eftir að vera góð auglýsing fyrir kvennakörfuna.

 

Hvað þarf Snæfell að gera til að klára þetta?
Snæfell virðist vera búið að finna taktinn og er sigurstranglegt í þessu einvígi. Gæðin, reynslan og þekkingin á að klára svona mót er eitthvað sem liðið mun nýta sér gegn ungu liði Keflavíkur. Þá er heimavöllur Snæfells gríðarlega sterkur. Ég vona að fólk í Hólminum sé ekki orðið ofdekrað eftir titlana síðustu þrjú tímabilin. Liðið þarf klárlega á góðum stuðningi að halda alla seríuna og stuðningsmenn liðanna geta haft mikil áhrif á hvort liðið fari með sigur af hólmi.

 

Hvað þarf Keflavík að gera til að vinna?
Keflavík þarf bara halda áfram á sömu braut og hingað til í vetur. Eins og í undanúrslitaviðureigninni gegn Skallagrím þá hafa Keflavikurstelpur engu að tapa og allt að vinna. Fyrir tímabilið reiknuðu allir með Snæfelli og Skallagrím í úrslitum enda spáð tveimur efstu sætunum. Keflavík vill hafa leikinn sem mest á fullum velli. Leikmenn liðsins eru yngri, fljótari og vilja nýta þessa flottu tækni sem þær búa yfir. Takist það, geta þær unnið.

 

Hvernig fer leikurinn í kvöld?
Ég ætla að spá að Keflavík taki leikinn í kvöld. Ég byggi þá spá á því að það er orðið helvíti langt síðan að Snæfell spilaði síðast og því ágætis líkur að það verði smá ryð í liðinu í kvöld. Keflavík ætti að vera í spilatakti og fengið líka passlega hvíld, ekki of langa og ekki of stutta.

 

Hverjar verða Íslandsmeistarar?
Ég ætla að spá Snæfelli 3-2 sigri eftir svakalegan oddaleik í Hólminum.