Nú er NBA tímabilinu lokið og því ekki úr vegi að veita verðlaun. Á næstu dögum mun Karfan.is heiðra nokkra einstaklinga sem hafa skarað fram úr í þeim hefðbundnu flokkum sem verðlaunað er fyrir í NBA deildinni. Margt kemur til álita þegar að svona verðlaun eru veitt en til grundvallar liggur aðallega gildismat þess sem þetta skrifar.

               

6. maður ársins: “Sweet” Lou Williams – Houston Rockets

Lou Williams er 6. Maður ársins í ár. Hann hefur allt sem góður fyrsti kostur af bekknum þarf að hafa. Er góð skytta, getur búið sér til skot úr engu og er alltaf heitur og tilbúinn að skjóta. Það var afskaplega gaman að sjá hann spila í fyrsta leiknum sínum eftir að hafa verið skipt til Houston, það tók hann 10 sekúndur að bomba niður þriggja stiga skoti. Hann er með bestu tölurnar af öllum vonbiðlum þessara verðlauna hvernig sem á það er litið þó það vanti talsvert upp á varnarleikinn.

 

17,5 stig, 2,5 fráköst og 3 stoðsendingar á 24 mínútum með PER upp á 21,4 er frábær árangur, bætum við hversu vel hann fellur inn í skemmtilegt lið Houston Rockets og við erum með 6. Mann ársins.

 

 

2. Sæti: Eric Gordon – Houston Rockets

Eric Gordon hefur gengið í endurnýjun lífdaga. Eftir ansi erfið og mögur ár í New Orleans hefur Gordon spilað feykilega vel í vetur. Hann er herforingi varamanna Houston liðsins og spilar virkilega vel sem skytta þegar að James Harden er inni á vellinum. Hefur aðeins dalað eftir stjörnuleikshelgina.

 

 

3. Sæti: Andre Igoudala – Golden State Warriors

Andre Igoudala er sennilega besti leikmaður deildarinnar sem byrjar ekki inni á vellinum í sínu liði. Hann er gríðarlega mikilvægur hluti af besta liði deildarinnar og er oftast á gólfinu þegar að leikirnir eru að klárast. Flott tímabil hjá flottum leikmanni