Vestri sigraði Val í úrslitaleik 9. flokks drengja Maltbikarkeppninnar með 60 stigum gegn 49. Fyrsti titill Vestra síðan árið 1967.

 

Fyrir leik

Liðin höfðu mæst einusinni áður í vetur, en þá sigraði Valur. Það skal reyndar tekið fram að í þann leik vantaði Vestra stjörnuleikmann sinn í dag Huga Hallgrímsson.

 

Fjöldi leikmanna

Vestri var að spila á færri leikmönnum en Valur í dag, þar sem að þeir voru aðeins með 7 leikmenn á skýrslu á móti 10 leikmönnum Vals. Fór svo að lokum að Vestri spilaði nánast einungis á byrjunarliði sínu í þessum leik á meðan að Valur notaðist, að mestu, við 7 leikmenn.

 

Kjarninn

Fyrri hálfleikur þessa leiks var jafn og spennandi. Vestradrengir þó skrefinu á undan í fleiri skipti. Eftir fyrsta leikhluta var staðan jöfn, 12-12 og þegar að liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik var Vestri stigi yfir, 23-24.

 

Í hálfleik var Ástþór Atli Svalason atkvæðamestur fyrir fyrir Val með 5 stig, 7 fráköst og 2 stoðsendingar. Fyrir Vestra var það Hugi Hallgrímsson með 5 stig, 9 fráköst og 4 varin skot.

 

Í upphafi seinni hálfleiksins var leikurinn svo áfram í járnum, eftir 3. leikhluta var staðan aftur jöfn 38-38.

 

Undir lok leiksins tók Vestri svo öll völd á vellinum og kláraði leikinn með miklum gæsibrag. Þeir bræður, Hugi og Hilmir Hallgrímssynir frábærir í dag, skora 43 af 60 stigum sinna manna, þrátt fyrir að þurfa að spila allar 32 mínúturleiksins.

 

Þáttaskil

Í upphafi 4. leikhlutans tóku Vestramenn á rás. Byggðu upp 7 stiga forystu á fyrstu 3 mínútum fjórðungsins, 40-47. Létu svo kné fylgja kviði undir lok leiksins og sigldu að lokum þæginlegum 49-60 sigri í höfn.

 

Tölfræðin lýgur ekki

Vestri var heilt yfir með betri tölfræði í þessum leik. Þó kannski í lagi að benda á það að þeir hafi tekið 48 fráköst á móti aðeins 37 hjá Val. 

 

Fyrsti titillinn

Þessi titill Vestra er sá fyrsti í sögu félagsins. Reyndar ef að við segjum Vestra vera hluta af sögu KFÍ þá mætti segja að þetta sé sá fyrsti í 50 ár, eða frá því að 2. flokkur kvenna vann Íslandsmeistaratitilinn árið 1967.

 

 

Hetjan

Hugi Hallgrímsson var stórkostlegur í dag. Var með þrefalda tvennu. Skoraði 18 stig, tók 20 fráköst, gaf 5 stoðsendingar og varði 10 skot á þeim 32 mínútum sem að hann spilaði.

 

 

 

Tölfræði leiks

Myndasafn#1 (Ólafur Þór Jónsson)

Myndasafn#2 (Bára Dröfn)

 

 

Umfjöllun / Davíð Eldur

Myndir / Bára Dröfn

Myndir, viðtöl / Ólafur Þór