Valur hafði sigur á Haukum í Schenker-Höllinni í kvöld, 62-74, þegar liðin áttust við í 23. umferð Domino‘s deildar kvenna. Eftir umferðina situr Valur í 5. sæti deildarinnar með 20 stig en Haukar í 7. sæti með 12 stig.

Leikurinn var nokkuð jafn í fyrsta leikhluta og leiddi Valur að honum lokum með 4 stigum, 14-18. Brezzy Wiliams, leikmaður Hauka, nældi sér í sína fjórðu villu snemma í öðrum fjórðungi og vermdi bekkinn það sem eftir var fyrri hálfleiks. Áræðni vantaði í sóknarleik Hauka á þessum tíma og skoruðu þær einungis 7 stig í öðrum fjórðungi á móti 17 stigum Valsstúlkna sem höfðu náð þægilegri 14 stiga forystu í hálfleik, 21-35. Sá munur var of stór biti fyrir Haukastúlkur til að vinna upp í seinni hálfleik og sigraði Valur örugglega með 12 stigum, 62-74.

Atkvæðamest í liði Vals var Mia Loyd með risatvennu, 22 stig og 22 fráköst auk þess að gefa 4 stoðsendingar. Elín Sóley Hrafnkelsdóttir skoraði 12 stig og tók 5 fráköst fyrir Val og Dagbjört Dögg Karlsdóttir og Dagbjört Samúelsdóttir skoruðu 9 stig hvor.

Hjá Haukum var Brezzy Wiliams stigahæst með 23 stig og 9 fráköst, Þóra Kristín Jónsdóttir skoraði 12 stig, tók 6 fráköst og gaf 5 stoðsendingar og Rósa Björk Pétursdóttir og Dýrfinna Arnardóttir settu 10 stig hvor.

Tölfræði leiks

Myndasafn leiks (Bára)