Fjölnir mun tefla fram tveim erlendum leikmönnum í baráttunni um sæti í úrvalsdeild á næsta ári. Liðið er í öðru sæti 1. deildar karla og er ljóst að liði ætlar sér ekkert annað en að komast upp um deild. 

 

Marques Oliver hefur fengið leikheimild með félaginu og lék sinn fyrsta leik með Fjölni gegn Hetti um síðustu helgi. Oliver lék með Delaware State háskólanum sem er í 1. deild í bandaríska háskólaboltanum. Hann er hávaxinn framherji sem leikið hefur í efstu deild  í Þýskalandi og Kanada í atvinnumennsku. Hann mun vera góður varnarmaður sem getur leikið mismunandi stöður á vellinum. Oliver fékk ekki að sýna mikið af þessm hæfileikum í fyrsta leik þar sem hann var rekinn úr húsi í þriðja leikhluta og skilaði litlu. Hjalti Vilhjálmsson þjálfari Fjölnis sagði í samtali við Karfan.is að Oliver væri ætlað að þétta teiginn og þá sérlega varnarlega. 

 

Colin Pryor hefur leikið með liðinu síðustu tímabil og er með 20,9 stig, 12,8 fráköst og 3,4 stoðsendingar í leik með Fjölni. Hjalti staðfesti að liðið ætlaði að halda honum út tímabilið og spila því með tvo erlenda leikmenn út tímabilið. 

 

Fjölnir er í öðru sæti deildarinnar og mætir Vestra á föstudaginn á Ísafirði. Gríðarleg barátta er framundan um sæti í úrvalsdeild en Höttur er í góðri stöðu með fjögurra stiga foyrstu á toppi deildarinnar.