KR er bikarmeistari karla 2017 eftir hörku slag við Þór Þorlákshöfn annað árið í röð! Lokatölur í dag voru 78-71 KR í vil þar sem magnaður þriðji leikhluti kom Íslands- og bikarmeisturunum á sporið. Þá er kominn titill í safnið hjá Jóni Arnóri Stefánssyni sem hann hafði lengi langað til að vinna en Jón var með 19 stig, 8 stoðsendingar og 3 fráköst í dag. Philip Alawoya var stigahæstur hjá KR með 23 stig og 18 fráköst. Tobin Carberry var atkvæðamestur í liði Þórs með 29 stig, 8 fráköst og 9 stoðsendingar.
Einhverjir hafa verið að gæla við að meistaraþreyta sé komin í raðir KR-inga en þeir voru rétt í þessu að senda allt svoleiðis tal beint til föðurhúsanna. Þarna er gríðarlega þéttur og reyndur kjarni og þó meistararnir hafi kannski ekki náð sínu besta flugi til þessa þá eru þeir engu að síður á toppi Domino´s-deildarinnar og voru að verða bikarmeistarar.
Það tók liðin rúmar tvær mínútur að gera fyrstu stig leiksins en þau gerði Emil Karel Einarsson fyrir Þór með villu og körfu að auki en snöggtum síðar skellti hann í þrist og Þorlákshafnarmenn opnuðu leikinn því 6-0. Emil var ekki hættur því annar þristur frá honum kom Þór Í 11-4 og Tobin blandaði sér í veisluna 14-4 með þrist og þá tók Finnur Freyr leikhlé fyrir sína menn í KR.
KR tók hægt og bítandi við sér, urðu reyndar fyrir skakkaföllum þar sem Brynjar Þór Björnsson fékk þrjár villur í fyrsta leikhluta en Darri Hilmarsson lokaði fyrsta leikhluta á jákvæðum nótum fyrir röndótta með flautuþrist og minnkaði muninn í 18-16 eftir laglega stoðsendingu frá Jóni Arnóri Stefánssyni.
Íslands- og bikarmeistarar KR opnuðu annan leikhluta með fínni rispu en Emil Karel Einarsson jafnaði metin 23-23 með þriggja stiga skoti og var leikhlutinn hnífjafn alveg fram að hálfleiksflautinu. Carberry með stökkskotin sín var KR erfiður þar sem enginn liðsmaður röndóttra kemst upp þangað með honum.
Jón Arnór Stefánsson var að spila samherja sína vel uppi og hans fimmta stoðsendinga á Philip skilaði muninum niður í 34-32 og svo tók hann það að sér að ná forystunni af vítalínunni og KR leiddi 34-35 í hálfleik.
Philip Alawoya var stigahæstur hjá KR í hálfleik með 7 stig og 9 fráköst og Jón Arnór var með 6 stig og 5 stoðsendingar. Hjá Þór Þorlákshöfn voru þeir Emil Karel Einarsson og Tobin Carberry báðir með 12 stig í hálfleik og Emil auk þess með 7 fráköst.
Síðari hálfleikur fór jafn af stað, rétt eins og sá fyrri hafði verið. Þáttskil dagsins áttu sér stað þegar staðan var 43-44 fyrir KR þriðji hluti um það bil hálfnaður. KR tók á rás með 4-11 áhlaupi og inn í dembuna bættist tæknivíti á Einar Árna þjálfara Þórsara sem var full harður dómur en KR var í myljandi ham og komst í 46-61 og þannig stóðu leikar fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
Fátt ef nokkuð benti til þess að Þórsarar ættu séns á að komast aftur inn í leikinn, vörn KR-inga í þriðja var þeim gríðarlega erfið, þéttofinn röndóttur múr en Þórsarar færðu sig nærri og nærri og minnkuðu muninn í 71-76 þegar rúm hálf mínúta var til leiksloka. Emil Karel tók svo stóran þrist fyrir Þór þegar 16 sekúndur lifðu af leiknum en það er aldrei að vita hvað hefði gerst hefði sú „maríubæn“ ratað niður. Svo varð ekki og KR kláraði leikinn á línunni þar sem Philip Alawoya smellti niður tveimur vítum og lokatölur 71-78 fyrir KR.
Eins og áður hefur komið fram var Jón Arnór Stefánsson valinn besti maður leiksins með 19 stig og 8 stoðsendingar en þetta var jafnframt hans fyrsti bikarmeistaratitill á ferlinum. Téður Philip var líka drjúgur með sterka tvennu, 23 stig og 18 fráköst. Hjá Þór var Tobin Carbery atkvæðamestur með 29 stig, 8 fráköst og 9 stoðsendingar. Emil Karel Einarsson kom honum næstur með 15 stig og 11 fráköst.
KR fögnuður í leikslok
Byrjunarliðin:
KR: Pavel Ermolinskij, Darri Hilmarsson, Brynjar Þór Björnsson, Jón Arnór Stefánsson og Philip Alawoya.
Þór Þorlákshöfn: Tobin Carberry, Maciej Baginski, Ragnar Örn Bragason, Emil Karel Einarsson og Ólafur Helgi Jónsson.
Áhorfendur: 2066