Liðin í hlutlausu sætunum, því níunda og tíunda, mættust í Hertz-hellinum í kvöld. Haukar hafa aðeins verið að rétta úr kútnum með tveimur heimasigrum í röð en það hefur allt verið í blóma í Breiðholtinu síðustu mánuði og verkefni gestanna því ærið. Liðin voru að mestu fullmönnuð í kvöld en Kiddi M. og Hjalti eru enn frá ÍR-megin vegna meiðsla.

 

Þáttaskil:

Það voru stuðningsmenn ÍR-inga sem í raun hófu leik í kvöld. Stemmningin var algerlega geggjuð hjá heimamönnum og skilaboðin voru skýr; Haukar, þið eigið ekki séns! Leikurinn sjálfur fór líka þannig af stað og Matti og Danero leiddu sitt lið í 24-15 forystu eftir einn fjórðung. Gestirnir náðu að klóra verulega í bakkann, einkum í seinni hluta annars leikhluta, með Sherrod og Hjálmar fremsta í flokki. Staðan var 41-37 í hálfleik og Haukar gátu vel við unað.

Þriðji leikhluti gerði í raun útslagið í kvöld. Spilamennska gestanna var algerlega til skammar. Liðið tapaði boltanum að minnsta kosti 10 sinnum í leikhlutanum! Þó að varnarleikur heimamanna hafi verið góður er ekkert sem afsakar þetta og það var útlit fyrir að aðeins annað liðið hefði gaman af körfubolta. ÍR var 67-51 yfir að leikhlutanum loknum og úrslitin svo gott sem ráðin. Lítið breyttist í síðasta fjórðungnum og ÍR-ingar lönduðu glæsilegum 91-69 sigri.

 

Tölfræðin lýgur ekki:

Haukar töpuðu 24 boltum í kvöld. Ef einhver tölfræði væri yfir andlegt ástand leikmanna kæmu Haukar líka afskaplega illa út úr henni.

 

Hetjurnar:

Í fleirtölu án nokkurs vafa – stuðningsmenn ÍR-inga voru gersamlega frábærir og stemmarinn í Hellinum eins og á góðu kvöldi í úrslitakeppninni. Það væri dónaskapur að nefna ekki Matthías Orra hér líka – hann skoraði 27 stig og gerði ýmislegt fleira til að leiða liðið til sigurs.

 

Kjarninn:

ÍR-ingar áttu frábæran leik og hamingjan lak af öllum ÍR-ingum í kvöld. Þeir elskuðu allir sitt hlutverk, hvort sem það var að skora, verjast, frákasta, berjast eða hvetja á pöllunum. Undirritaður fullyrðir að flestir körfuboltaáhugamenn vilja fá þetta lið í úrslitakeppnina og að ekkert lið myndi velja sér ÍR-liðið sem andstæðing í átta liða úrslitum.

 

Haukar virtust ekki hafa nokkurn áhuga á körfubolta í kvöld. Það var engin gleði, aðeins vonleysi og pirringur. Liðið er fullt af hæfileikum en það er einhver alvarlegur andlegur þröskuldur sem heftir flæðið og skyggir á hæfileikana.

 

Tölfræði leiksins

 

Myndasafn leiksins

 

Umfjöllun / Kári Viðarsson

Myndir / Bára Dröfn