Sveinbjörn Klassi Claessen leikmaður ÍR var auðvitað eiturhress eftir leikinn og hrósaði stuðningsmönnum í hástert þegar Karfan.is náði tali af honum eftir leik. 

 

Ef ég man rétt þá lofaðir þú því eftir tap gegn Grindavík í þessu húsi í byrjun nóvember að fara að verja heimavöllinn og gera hann að vígi. 

 

Já, höfum við ekki unnið alla heimaleikina síðan þá?

 

Jú, fyrir utan KR. Þannig að þú hefur svo gott sem staðið við þetta!

 

Já, næstum því…við erum vel studdir…

 

Já, hvað er að gerast? Þvílíkur stemmari hérna í kvöld!

 

Ja, við erum í Breiðholtinu! Fannst þér þetta ekki gaman?

 

Algerlega! þetta var ógeðslega gaman!

 

Já stuðningsmennirnir eiga bara heiður skilinn, ótrúlega flottir, eru sjötti maðurinn og það smitast til okkar í liðinu. Það er bara ótrúlega gaman að spila hérna en við þyrftum bara að geta heimfært þetta á útileikina. Gengið hefur ekki verið alveg eins gott þar. En þessir stuðningsmenn eru bara alveg geggjaðir.

 

Mér fannst liðið sem og stuðningsmennirnir gefa Haukunum þau skýru skilaboð strax í byrjun að þeir ættu aldrei séns í kvöld?

 

Var þetta ekki einhvern veginn þannig að við náðum fljótt góðu forskoti en Haukar náðu smá áhlaupi á okkur rétt fyrir hálfleik en svo bara stungum við þá af. Mér leið alltaf þannig að við vorum með þennan leik í okkar höndum og aldrei spurning hvert stigin færu. 

 

Þið hljótið að stefna á að komast í úrslitakeppnina og ég fullyrði að margir körfuboltaáhugamenn vilja sjá ÍR komast þangað með þessa frábæru stemmningu sem hefur myndast í kringum liðið.

 

Að sjálfsögðu stefnum við á úrslitakeppnina. Mér er nú fyrst og fremst umhugað um liðið mitt og stuðningsmenn þess og að komast í úrslitakeppnina fyrir þá. Við erum að spila núna alveg ótrúlega góðan körfubolta, sérstaklega varnarmegin. Fáum aðeins 69 stig á okkur í kvöld. Þetta er sterk og jöfn deild en við þurfum bara að klára okkar leiki og þá erum við í úrslitakeppninni og gott betur.

 

Viðtal / Kári Viðarsson