Vesturlandið er gult og grænt í kvöld eftir ótrúlegan sigur Skallagríms á Snæfell í 18 umferð Dominos deildar karla í kvöld. Skallagrímur hafði mikla yfirburði framan af leik en seigla Snæfells kom þeim í framlengingu sem Borgnesingar unnu á ótrúlegri körfu frá Magnúsi Þór Gunnarssyni. 

 

Umfjöllun um helstu þætti leiksins má finna hér að neðan:

 

Gangur leiksins

Það tók gestina frá Stykkishólmi tæpar þrjár mínútur að setja sín fyrstu stig á töfluna. Skallagrímur mætti með gríðarlegum krafti í leikinn og hreinlega gengu frá Snæfell á báðum endum vallarins. Ingi Þór tók leikhlé í stöðunni 10-0 og tókst Snæfell þá að bæta stöðu sína gríðarleika en staðan eftir fyrsta leikhluta var 30-21. Skallagrímur náði þó að bæta í muninn í öðrum leikhluta þar sem Snæfell virtist hreinlega missa eldmóðinn. Staðan 64-42 í hálfleik og fátt sem leit út fyrir annað en öruggan sigur Skallagríms. 

 

Klisjan um að leikir vinnast ekki í fyrri hálfleik átti sérlega við i kvöld þar sem Snæfell mætti dýrvitlaust til leiks í seinni hálfleik og fóru að framkvæma sóknarleik sinn mun betur. Seinni hluta þriðja leikhluta fékk bekkurinn hjá Snæfell sína þriðju tæknivillu og fyrir vikið þurfti Ingi Þór að yfirgefa húsið. Af stað fór ótrúleg atburðarrás þar sem Ingi Þór var bannað að vera í stúkunni og mikil orka fór í þetta. Það virtist þó hafa kveikt í Snæfells liðinu sem náði að höggva hressilega á forystu Skallagríms í byrjun fjórða leikhluta.

 

Hólmarar voru ekki ánægðir með þessa uppákomu líkt og annað hjá dómurum leiksins í kvöld. Svo óánægðir voru þeir að Maciek Klimaszewski leikmaður Snæfells tísti fjótlega eftir leik þar sem hann gaf í skyn að dómarar leiksins hefðu verið svo hliðhollir Skallagrím að þeir hefðu hreinlega verið með þeim í liði: 

 

 

Þegar tvær mínútur eru til leiksloka kemst Snæfell svo yfir í fyrsta skipti í leiknum. Gríðarlega spennandi lokamínútur tóku við og það var mögnuð þriggja stiga karfa Árna Elmars á lokaandartökum leiksins sem tryggði Snæfell framlengingu. Í framlengingunni var sama jafnræðið yfir liðunum. Það var að lokum reynslan í Magnúsi Þór sem setti rosalega þriggja stiga körfu þegar fjórar sekúndur voru eftir af framlengingunni sem tryggði Skallagrím sigur í þessum ævintýralega vesturlandsslag. 

 

Hetjur vesturlands

 

Þeir Magnús og Eyjólfur (þó ekki Laufdal) eiga skilið fimmu fyrir að hafa dregið stigin tvö í hlað í kvöld. Eyjólfur steig frábærlega upp þegar þeir Sigtryggur Arnar og Flenard Whitfield fóru útaf með fimm villur. Hann endaði með ótrúlega þrefalda tvennu með 27 stig 10 fráköst og 10 stoðsendingar. Hann sótti körfur í framlengingunni þegar á þurfti og stendur uppi sem hetjan með Magnúsi Þór Gunnarssyni. Kauði skellti niður ísköldum þrist í framlengingunni þegar fjórar sekúndur voru eftir og tryggði sigurinn með því. 

 

 

Kjarninn

 

Snæfell geta verið sárir með tap kvöldsins en fyrst og fremst stoltir. Þrátt fyrir að vera komnir í ómögulega stöðu og án þjálfara síns kom liðið til baka og var hársbreidd frá því að ná í sinn fyrsta sigur. Leikmenn mega eiga endalaust hrós fyrir áræðni sína og dugnað í þeirri stöðu sem liðið er í dag. Það væri einfalt að mæta litlir í sér eftir nærri 20 töp í röð en það gerist aldrei hjá liðinu og mega menn þar á bæ vera stoltir af. 

 

Staðreyndin er sú að þrátt fyrir ósannfærandi frammistöðu í dag er Skallagrímur komið úr fallsæti með 14 stig. Þetta er fjórði leikur liðsins í vetur sem endar í framlengdum leik og hefur Skallagrímur unnið þrjá af þeim. Það er í raun mögnuð tölfræði þegar litið er til þess að liðið er að mestu skipað ungum og óreyndum leikmönnum. Þetta var einnig fjórði heimaleikurinn í röð sem Skallagrímur fær á sig meira en 100 stig sem er mikið áhyggjuefni fyrir lið sem sýndi gríðarlega baráttu og varnarleik í fyrri hluta tímabilsins. Tvisvar hefur það gerst í sögu 12 liða deildar að lið hafa fallið með 14 stig og ansi líklegt að það þurfi jafnvel enn fleiri stig í ár til að bjarga sér frá falli. 

 

Hrós dagsins

 

Stöð 2 sport sýndi i kvöld flottan leik Grindavíkur og Keflavíkur en að honum loknum og ljóst var að framlenging væri staðreynd í Borgarnesi var útsendingin lengd og sent beint frá Vesturlandsslagnum. Frábært fyrir körfuboltaáhugamenn sem voru ekki sviknir af frábærum útsendingum þeirra félaga frekar enn fyrri daginn. 

 

 

Tölfræði leiksins

Myndasafn

 

Viðtal við Magnús Þór Gunnarsson eftir leik
VIðtal við Inga Þór Steinþórsson eftir leik
Viðtal við Finn Jónsson eftir leik

 

Umfjöllun / Ólafur Þór Jónsson

Myndir / Ómar Örn Ragnarsson