Mögnuð stemmning myndaðist þegar vesturlandsliðin Skallagrímur og Snæfell mættust í undanúrslitum Maltbikarsins. Hnífjafn leikur lauk með rosalegri þriggja stiga körfu Sigrúnar Sjafnar fyrir sigri. 

 

Helstu atriði leiksins eru hér að neðan:

 

Gangur leiksins

 

Það var alveg morgunljóst frá fyrstu mínútu að bæði lið ætluðu að skilja allt eftir á vellinum og ekki gefa tommu eftir. Á sama tíma var jafnt á nánast öllum tölum í fyrsta leikhluta og framan af þeim þriðja. Bæði lið voru ísköld fyrir utan þriggja stiga línuna í fyrri hálfleik en ekkert skot rataði ofaní í 21 tilraun. Gríðarleg harka var í leiknum í kvöld og áttu dómarar í fullu fangi með að stjórna leiknum. 

 

Borgnesingar áttu þriðja leikhlutann skuldlaust og munaði þar helst um að liðið færði sig í 3-2 svæðisvörn til skiptis við maður á mann varnarafbrigði. Eftir það skiptust liðin að ná í stemmningu og augnablikið til að klára leikinn. Það gerðist ekki og réðst leikurinn hreinlega á lokasekúndunum þar sem taugar Sigrúnar Sjafnar vógu þungt. 

 

Skallagrímur hafði ekki hitt þriggja stiga körfu í leiknum þegar 20 sekúndur voru eftir í 11 tilraunum og liðið tveim stigum undir. Liðið tók langa sókn sem endaði á ótrúlegu þriggja stiga skoti Sigrúnar sem rataði ofan í. Snæfell tókst ekki að jafna leikinn eða vinna í lokasókninni og sigur Skallagríms því tryggður. 

 

Tölfræðin lýgur ekki

 

Fjórtán sinnum í leiknum voru liðin jöfn og þau skiptust 11 sinnum á forystunni. Það gefur ansi góða mynd af leiknum því hann var hnífjafn. Betri skotnýting Skallagríms á vítalínunni og þriggja stiga línunni var helsti munurinn. Þriggja stiga nýting leiksins var 5,9% eða 2/33 skotum sem rötuðu ofan í. 

 

Hometown hero

 

Sigrún Sjöfn Ámundadóttir er nú í fyrsta skiptið í Laugardalshöllinni fyrir sitt uppeldisfélag og sú tók ábyrgðina á annað level. Hún setti risastóran þrist í loka sókn Skallagríms til að tryggja sigurinn. Mögulega eitt stærsta skot í sögu kvennakörfunar í Borgarnesi frá árinu 1964. Sigrún endaði með 10 stig, 11 fráköst, 5 stoðsendingar og 4 stolna bolta. 

 

Myndband af lokaskotinu má sjá hér að neðan:

 

Kjarninn

 

Skallagrímur er komið í úrslit í bikarkeppni KKÍ í fyrsta skipti í sögu félagsins. Félagið er nýliðar í efstu deild kvenna og er þessi dægrin efsta lið deildarinnar og komið í úrslitaleikinn. Liðið mætir þar Keflavík á laugardag en liðin hafa einnig átt frábæra leiki uppá síðkastið. Skallagrímur lék mjög sterkan varnarleik heilt yfir þar sem skipt var reglulega á milli afbrigða til að koma Snæfell úr takti. 

 

Snæfell lék einnig vel í dag og í raun erfitt að segja hvað nákvæmlega skildi liðin af. Stuðningsmenn beggja liða fá hrós dagsins því stemmningin og orkan í Laugardalshöllinni var gjörsamlega geggjuð. Ljóst er að það má loka öllum sjoppum í Borgarnesi á laugardag því það verða allir í Laugardalshöllinni á laugardaginn. 

 

Tölfræði leiksins

 

Myndasafn #1 (Bára Dröfn) 

Myndasafn #2 (Þorsteinn Eyþórsson)

 

Viðtöl

 

 

Umfjöllun / Ólafur Þór Jónsson

Viðtöl / Davíð Eldur

Myndir / Bára Dröfn og Þorsteinn Eyþórsson