Haukar tóku á móti akureyringum í Dominos deild karla í kvöld. Heimamenn gátu með sigri komið sér uppúr fallsæti en Þórsarar nálgast heimaleikjarétt með sigri. Leikurinn í kvöld var ákaflega dapur gæðalega en Haukar náðu sér í sigur með sterkum varnarleik. 

 

Gangur leiksins

Fyrri hálfleikur var nokkuð jafn og það var ekki fyrr en seinni part annars leikhluta sem Haukar með Sherrod Wright fremstan í flokki sigu örlítið framúr og fóru með 35-29 forystu í hálfleik. Skotnýting Þórs var sérlega döpur i hálfleik eða 29% og þar af 2/12 í þriggja stiga skotum. Gæði leiksins voru ekki uppá marga fiska í fyrri hálfleik en þeir Sherrod Wright og George Beamon báru af í sínum liðum.

 

Haukar héldu forystu sinni í þriðja leikhluta en skotin fóru að detta meira báðu megin. Virkilega sterkur varnarleikur Hauka í seinni hálfleik kom Þórsurum ítrekað í vandræði og lítið gekk. Helst lentu Haukar í vandræðum með Tryggva Snæ undir körfunni en sóknarleikur Þórs fór of lítið í gegnum hann. 

 

Sherrod Wright setti Hauka liðið á sínar herðar og kláraði leikinn að lokum en hann virtist hitta úr öllum skotum sínum undir lokin. Haukar fengu enga almennilega mótspyrnu undir lokin og 97-92 sigur staðreynd. 

 

 

Tölfræði leiksins

Tölfræðiskýrsla leiksins styður það að gæði leiksins voru lítil. Bæði lið hitta illa, tapa mörgum boltum og lítið um alvöru áhlaup. Darrel Lewis og Danero Thomas skjóta næstum helming skota liðsins en hitta mjög illa. 

 

Hetjan

Haukar geta þakkað Sherrod Wright fyrir sigur kvöldsins. Hann setti 42 stig, 12 fráköst og með nærri 60% skotnýtingu. Hann dróg vagninn algjörlega sóknarlega fyrir Hauka en fyrir utan hann voru Hjálmar Stefánsson og Emil Barja sterkir varnarlega. Hjá Þór var George Beamon atkvæðamestur en flæðið í sóknarleik Þórs stoppaði ansi oft á honum. 

 

Kjarninn

Haukar eru nú í 10 sæti deildarinnar eftir að hafa setið í fallsæti síðustu vikurnar. Liðið er með 100% sigurhlutfall í febrúar síðustu fjögur ár og héldu uppteknum hætti. Varnarleikur liðsins var mjög sterkur en þeir gáfu of mörg sóknarfráköst og í raun ótrúlegt að vinna leik þegar þú fær á þig 23 sóknarfráköst.  Best gekk hjá Haukum sóknarlega þegar þeir brutust útúr þríhyrningssókninni og Sherrod Wright fékk frítt hlutverk í sóknarleiknum. Hann hitti fáránlega í seinni hálfleik og flest gott fór í gegnum hann og Emil Barja. 

 

Þór Akureyri vantaði einhvað aukalega sóknarlega í dag. Hugmyndaflæðið og flæðið var lítið hjá liðinu og menn sem hittu illa tóku öll skotin á meðan leikmenn eins og Ragnar Helgi tók bara 6 skot í öllum leiknum en hitti vel. 

 

Tölfræði leiksins

 

Myndasafn leiksins

 

 

Viðtöl eftir leik: 

 

 

 

Myndir / Bára Dröfn

 

Umfjöllun og viðtöl / Ólafur Þór Jónsson