Stjörnukonur tóku í kvöld á móti Haukum í Domino’s deild kvenna. Fyrir leikinn höfðu Stjörnukonur fjögurra stiga forskot á Val í fjórða sæti deildarinnar, en Haukar voru í því sjöunda með 10 stig. Haukakonur virtust hins vegar ekki ætla að láta stöðuna í deildinni trufla sig mikið, því fyrstu þrjá leikhlutana höfðu Hafnfirðingar öll völd á vellinum. Fátt gekk upp hjá heimakonum á sama tíma, og höfðu gestirnir 16 stiga forskot að loknum þremur leikhlutum, 35-51.  Þá skyndilega vöknuðu Stjörnukonur úr djúpu roti, skiptu yfir í svæðisvörn og hreinlega völtuðu yfir gestina í lokaleikhlutanum. Fór svo að Stjarnan vann lokafjórðunginn 32-8, og leikinn þar með 67-59. Ótrúlegur viðsnúningur.

 

 

Lykillinn

Fyrir lokafjórðunginn virtist fátt geta komið í veg fyrir Haukasigur. Gestirnir höfðu spilað flotta vörn allan leikinn og virtust talsvert ákveðnari í að hirða stigin sem í boði voru. Eins og áður sagði völtuðu Stjörnukonur hins vegar yfir Hafnfirðinga í fjórða leikhluta. Þar spiluðu ungir leikmenn Stjörnunnar á borð við Jónínu Þórdísi Karlsdóttur og Viktoríu Líf Steinþórsdóttur stóra rullu með ótrúlegri vörn, á meðan Dani Rodriguez stýrði sóknarleiknum eins og hershöfðingi. Þegar tæpar þrjár mínútur lifðu leiks og staðan var 50-56 Haukum í vil fékk Nashika Williams, erlendur leikmaður Hauka, sína fimmtu villu. Þær þrjár mínútur sem eftir lifðu vann Stjarnan 17-3.

 

Hetjan

Danielle Rodriguez var að vanda potturinn og pannan í sóknarleik Stjörnunnar, en hún lauk leik með 35 stig og bætti við 11 fráköstum og 6 stoðsendingum. Hins vegar verður að gefa áðurnefndum Jónínu Þórdísi og Viktoríu Líf mikið hrós fyrir frábæran varnarleik í fjórða leikhluta, og þá skoraði Bríet Hinriksdóttir algeran lykilþrist þegar hún kom Stjörnunni 4 stigum yfir þegar tæp mínúta lifði af leiknum. Þessar fjórar fá að deila nafnbótinni að þessu sinni.

 

Tölfræðin

32-8. Algert hrun hjá Haukakonum í fjórða leikhluta, sem Garðbæingar unnu 32-8.

 

Framhaldið

Eftir leikinn eru Stjörnukonur enn í fjórða sæti deildarinnar, en eru nú eftir leiki dagsins sex stigum fyrir ofan Val þegar deildin fer í tveggja vikna hlé vegna bikarúrslitaleikja. Haukakonur fara í ansi stutt hlé því næsti leikur hjá þeim er í undanúrslitum bikarsins næsta miðvikudag, en þar munu Hafnfirðingar mæta Keflavík. Stjörnukonur leika hins vegar næst gegn Grindavík á útivelli þann 15. febrúar.

 

Tölfræði leiks

 

Umfjöllun, viðtöl / Elías Karl Guðmundsson

 

Viðtöl: