?

Þórsarar léku á alls oddi í kvöld þegar þeir tóku á móti nýkrýndum bikarmeisturum KR og höfðu 18 stiga sigur 83-65.

 

 

 

Leikurinn fór rólega af stað og jafnt á með liðunum fram í miðjan fyrsta leikhluta en þá náði KR fjögra stiga forskoti 22-18. En þegar tvær mínútur lifðu af leikhlutanum komst Þór yfir í fyrsta sinn í leiknum 26-24 og Þórsarar létu þá forystu aldrei af hendi. Þór leiddi með þrem stigum eftir fyrsta leikhluta 29-26.

 

Þórsarar byrjuðu annan leikhlutann ágætlega og spiluðu góða vörn og héldu bikarmeisturunum niðri og eftir sjö mínútna leik hafði Þór skorað 14-6 og forskotið þá orðið 11 stig 43-32. KR ingar svöruðu með 5-2 kafla og komu muninum niður í 8 stig þegar liðin gengu til búningsklefa í hálfleik 45-37.

 

Báðum liðunum gekk illa að finna réttu leiðina að körfunni í síðari hálfleik og Þór skoraði ekki fyrstu stigin í þriðja leikhluta fyrr en eftir rúmlega þriggja mínútna leik, en þá hafði KR minnkað muninn í 6 stig 45-39. En í kjölfarið setti Þröstur Leó niður tvo mikilvæga þrista staðan 52-44 þegar sex mínútur voru liðnar af leikhlutanum. Á þessum tímapunkti hrökk Þórsliðið svo um munar í gang og bikarmeistararnir áttu engin svör við baráttugleði Þórs. Þórsliðið raðaði niður hverri körfunni á fætur annarri og héldu bikarmeisturunum niðri. Þegar fjórði leikhlutinn hófst hafði Þór náð 16 stiga forskoti 64-48.

 

Eins og segir í upphafi umfjöllunar léku Þórsarar á alls oddi og það gerðu þeir svo sannarlega og þeir bættu jafnt og þétt í og þegar fimm mínútur voru til leiksloka hafði Þór náð 29 stiga forskoti 81-52. Á þessum tímapunkti hafði Þór skorað 17 stig gegn 4 KR inga. Þegar hér var komið við sögu virtust Þórsarar hreinlega orðnir saddir og þeir slökuðu á og það nýttu gestirnir sér og þeim tókst að laga stöðuna nokkuð. Á lokakaflanum skoraði KR 13 gegn 2 Þórs og þeir komu muninum niður í 18 stig áður en yfir lauk en nær komust þeir ekki.

 

Þórsarar fögnuðu því öruggum 18 stiga sigri 83-65 sem verður að teljast afar sanngjarn þegar upp er staðið.

 

Sigur Þórs í kvöld var liðsheildarinnar og dreifðist stigaskor nokkuð jafnt á leikmenn Þórs en George Beamon var stigahæstur með 19 stig 7 fráköst og 4 stoðsendingar. Tryggvi Snær var með 16 stig og 12 fráköst, Ingvi Rafn 15 stig og 6 stoðsendingar, Þröstur Leó 12 stig, Darrel Lewis 10 stig og 6 fráköst, Ragnar Helgi 7 stig og Sindri Davíðsson 4.

 

Hjá KR voru þeir Þórir Guðmundur og Philip Alawoya stigahæstir með 12 stig hvor, Jón Arnór Stefánsson, Darri Hilmarsson og Sigurður Þorvaldsson 10 stig hver, Arnór Hermannsson 7 og þeir Snorri Hrafnkelsson og Pavel Ermolinskij 2 stig hvor.

 

Eftir sigurinn í kvöld er Þór komið í 5. sæti deildarinnar með 18 stig en KR enn sem fyrr á toppi deildarinnar ásamt Stjörnunni með 26 stig.

 

Tölfræði leiksins

 

 

Myndaalbúm: Palli Jóh: http://thorsport.is/thorsport/D10Master.aspx?D10cID=ViewAlbum2&ID=909&CI=0&pagesize=20