Vestri og Fjölnir mættust á Jakanum á Ísafirði í kvöld í 1. deild karla. Fjölnis menn voru án annars erlenda leikmanns síns, Marques Oliver, en hann var frá eftir að hafa lent í líkamsárás á síðustu helgi. Tvo byrjunarliðsmenn vantaði einnig í lið heimamanna en Adam Smári Ólafsson var frá vegna meiðsla og Magnús Breki Þórðason, sem er á láni frá Þór Þorlákshöfn, var kallaður aftur suður vegna meiðsla í Þórsliðinu.

 

Vestanmenn byrjuðu leikinn með látum og komust í 9-0 á fyrstu mínútunum. Lætin færðust þá yfir til gestana sem skoruðu næstu 10 stig, flest frá Bergþóri Ægi Ríkharðssyni sem skoraði 12 af 17 stigum sínum á fyrstu 5 mínútum leiksins. 

 

Jafnræði var með liðunum fram að hálfleik en þá stungu Fjölnismenn af. Mest náðu þeir 21 stigs forustu og unnu að lokum öruggan 68-86 sigur.

 

Stigahæstur í liði gestanna var Collin Anthony Pryor með 24 stig en hann tók einnig 19 fráköst.

 

Hjá Vestra var Yima Chia-Kur stigahæstur með 20 stig.

 

Eftir sigurinn eru Fjölnir í öðru sæti deildarinnar með 28 stig, 4 stigum meira en Valur sem á þó þrjá leiki til góða.

 

Þrátt fyrir þriðja ósigurinn í röð er Vestri enn í harðri baráttu við Hamar, FSu og ÍA um fimmta sæti deildarinnar og það síðasta sem gefur sæti í úrslitakeppninni. Vestanmenn eru sem stendur í sjöunda sæti, tveimur stigum á eftir Hamri sem verma það fimmta. Næsti leikur Vestra er á móti FSu á sunnudaginn.

 

Tölfræði leiksins

 

Umfjöllun / Sturla Stígsson