Breiðablik bar sigurorð af botnliði Ármanns í kvöld í Kennaraháskólanum í átjándu umferð 1. deildar karla, 73-92. Staðan var í hálfleik 36-48, gestunum í vil. Eftir sigurinn eru Kópavogspiltar enn í 4. sæti deildarinnar meðan Ármenningar sitja enn stigalausir á botninum.

 

Af hverju unnu Blikar?

Þegar staðan í deildinni er skoðuð þá þarf öngvan Nostradamus til þess að spá því að Blikar kæmu til með fara með sigur af hólmi úr þessari viðureign. Ármenningar hafa ekki flotið á feitum hval í vetur og hafa tapað öllum átján leikjum sínum. Þeir léku þó ágætlega á köflum í leiknum gegn Blikum en gestirnir úr Kópavoginum voru einfaldlega nokkrum númerum of stórir fyrir þá að þessu sinni. 

 

Þeir sem riðu feitum hesti

Hjá Blikum voru það helst ungu strákarnir sem glöddu augað; Sölvi, Guðjón og Matthías. Þjálfarar liðsins róteruðu liðinu mjög mikið og leyfðu öllum leikmönnum tólf að spreyta sig. Aukinheldur voru Sveinbjörn, Leifur Steinn og Kjartan Atli ekki með í kvöld og vonandi verða þeir klárir í stórslaginn á sunnudaginn þegar Hlíðarendapiltar koma í heimsókn í Smárann.

Hjá Ármenningum dreifðist spilatíminn vel á milli manna og áttu nokkrir leikmenn þeirra ágætis spretti í leiknum. Þeir sprungu þó á endanlega limminu í 3. leikhluta en mest áberandi í leik þeirra voru Brynjar, Guðni, Daníel og Þorsteinn.

 

Þeir sem duttu af meri

Það má segja að einbeiting – eða öllu heldur einbeitingarleysi – nokkurra lykilmanna Breiðabliks hafi verið þeirra Akkilesarhæll í leiknum.  Þeir gjörsigruðu Ármann í síðasta leik, 132-51, og hafa örugglega átt erfitt með að ná upp réttum fókus fyrir verkefnið. Þá er vert að geta áhorfenda en um 15 manns voru á leiknum sem er nú með því sorglegra sem undirritaður hefir séð lengi. Reyndar skal ekki horft framhjá því að Vetrarhátíð stendur nú sem hæst og var t.a.m. frítt í safnastrætó á meðan á leiknum stóð! Hvað um það.

 

Hvað gerist næst?

Bæði lið verða í eldlínunni á sunnudaginn. Þá mæta Blikar Valsmönnum í stórslag í Smáranum en Ármenningar sækja Fjölnismenn heim í Grafarvoginn.

 

Tölfræði leiks

 

Umfjöllun / Gylfi Gröndal