Spámenn Maltbikarsins stökkva nú fram á sviðið, næstur í röðinni er varamaðurinn, pistlahöfundurinn og lögmaðurinn Sævar Sævarsson.

Keflavík – Haukar

Tvö lið með mikla sögu, óhemju mikið magn af titlum og ótæmandi brunn þegar kemur að útungun leikmanna í kvennaflokkum. Kornungt Keflavíkurliðið hefur auðvitað vakið mikla athygli fyrir vasklega framgöngu á tímabilinu á meðan Haukastúlkur hafa haft hægara um sig en oft áður. Þeir segja að allt geti gerst í bikarnum en ég tel að sú mýta eigi ekki við hér. Hér mun betra liðið fara með sigur. Betra liðið er Keflavík.

Skallagrímur – Snæfell

Þessi leikur verður hin mesta skemmtun enda um nágrannaslag að ræða með tveimur áþekkum og jöfnum liðum. Vesturlandið er undir en þessi lið eiga það sammerkt með liðunum í hinum undanúrslitaleiknum að það eru konurnar sem halda uppi heiðri félaganna meðan karlaliðin ströggla. Skallagrímsstúlkur hafa verið ívið sterkari í vetur en það er eitthvað sem segir mér að töfraformúla Inga Þórs og a.m.k. fimm þristar frá Gunnhildi Gunnarsdóttur tryggi Snæfellsstúlkum sigur.

Valur – KR

Meistari Megas söng á sínum tíma um að formsatriði hafi ekki verið fullnægt. Ekki verður hægt að heimfæra þann unaðslega söng á þennan leik því hér verður formsatriðinu svo sannarlega fullnægt. Það má hrósa Val fyrir það „þrekvirki“ að hafa komist í gegnum þrjú slök úrvalsdeildarlið á leið sinni í undanúrslitin. Það hefur þó meira að gera með þá staðreynd að neðri hluti úrvalsdeildarinnar er slakur en gæði Valsliðsins. Við þá sem halda öðru fram segi ég bara; Afsakiði meðanað ég æli. KR vinnur þennan leik með 30+

Þór Þorlákshöfn – Grindavík

Bæði þessi lið eru frekar lágvaxin og því „matcha“ þau vel upp á móti hvort öðru. Liðin eru hnífjöfn í deild með 18 stig og þá hafa liðin unnið sinn leikinn hvort í innbyrðisviðureignum. Það ættu því að vera allar forsendur fyrir því að um skemmtilegan og spennandi leik verði að ræða. Það er þó eitthvað sem segir mér að leikurinn verði alls ekki spennandi og annað liðið verði með yfirhöndina frá upphafi til enda. Mér er þó hulin ráðgáta hvort liðið það verður. Ef hins vegar lukkubangsinn Sveinbjörn Skúlason, fyrrum leikmaður Þórsara, mætir á leikinn set ég aleiguna á Þór.

#Maltbikarinn – Karl West