Síðasti spámaðurinn er mættur fyrir undanúrslitabardagana. Síðastur en ekki sístur á svið er Kristinn Geir Friðriksson fyrrum leikmaður Keflavíkur, Þórs og Tindastóls, þjálfari og núverandi sérfræðingur hjá Körfuboltakvöld á Stöð 2 Sport.

Keflavík – Haukar
Ég er á því að Keflavík vinni Hauka í þessum leik en að það verði mjög erfiður leikur. Haukar hafa spilað undir getu í vetur og er verulega sjóað í leikjum sem þessum, þar sem allt er undir. Haukaliðið hefur tapað fjórum í röð í deild og mun þess vegna koma með hugarfar í þennan leik sem gæti fleytt þeim langt; þ.e. stelpurnar gera sér grein fyrir því að sigur í þessum leik getur einfaldlega bjargað öllu tímabilinu. Þetta gæti mögulega vegið þungt í þessari viðureign. Þrátt fyrir þetta held ég að Keflvíkingar séu nægilega sterkar. Keflavík hefur unnið báða leiki liðanna í vetur en munurinn á liðunum er ekki sá sami núna og þegar þau mættust fyrst. Þess vegna þurfa Keflvíkingar að passa andlegu hliðina sína og vanmeta Haukaliðið ekki. Þessi tuttugu stiga munur liðanna í deildinni skiptir engu máli í svona leik. Ef Haukar mæta gráar fyrir járnum og einbeittar á meðan Keflavík ætlar að dúlla sér í úrslitaleikinn munu Haukakonur refsa. Ef Keflavíkurliðið mætir hinsvegar andlega þétt og ákveðið til leiks munu þær komast í úrslitaleikinn. Ég spái hinsvegar mínu uppeldisfélagi sigri.

Skallagrímur-Snæfell
Skallagrímur hefur spilað frábærlega í vetur en ég held að Snæfell muni ná að taka þennan epíska slag, og ég held einmitt að þessi leikur gæti farið í sögubækurnar sem slíkur. Þarna mætast tvö af þremur bestu liðum landsins sem er grannaslagur í þokkabót. Þetta á að verða algjör veisla fyrir íþróttina en til þess að svo verði er mikilvægt að bæði lið mæti ekki bara líkamlega tilbúin heldur sérlega heil á geðsmunum. Þessi leikur snýst 80% um andlegt heilbrigði, ekki einstakra leikmanna, heldur liðsheildarinnar og hvernig þjálfarinn nær að mótivera sína leikmenn. Þarna stendur Ingi Þór framarlega en hann þekkir þessi augnablik betur en flestir starfandi þjálfarar í deildinni; svona leikir eru hans ær og kýr. Varnarleikurinn mun skipta sköpum hjá báðum liðum og það lið sem nær að halda andstæðingnum undir 65 stigum vinnur leikinn.  Hafa skal í huga að ég er nauðbeygður að spá fyrir um sigurvegara í þessum leik en undir eðlilegum kringumstæðum gæti ég ekki gert það því ef einhverntíma leikur muni ráðast á dagsformi þá er það umræddur leikur. Snæfell fer þetta á reynslu og betri andlegri heilsu.

KR-Valur
Ef Valur vinnur KR í þessum höfuðborgarslag munu ekki bara himnarnir falla, heldur munu hinar ýmsu tegundir af fiðurfénaði hefja sig til flugs úr óæðri endum ráðamanna ríkisins! KR mun komast mjög auðveldlega í gegnum þennan leik og ef einhver hefur áhuga á að benda mér á það hefði verið auðvelt að segja það sama um Haukana í síðustu umferð Bikarsins þá vil ég einfaldlega svara með vandræðalegri þögn því þar væri verið að bera saman epli og appelsínur. Haukarnir eru veikburða í deildinni og KR allt annað en. Þetta verður líkast til leiðinlegasti leikurinn af þessum fjórum og aðeins formsatriðið fyrir Íslandsmeistarana að klára. Það er komið of langt í þessari keppni til þess að KR misstígi sig og stóri sigur Valsmanna í keppninni var sigur þeirra á Haukum. Valsmenn eru saddir (þó þeir viti það ekki sjálfir ennþá) og þó þeir muni vissulega koma gargandi útúr klefanum, fullir sjálfstrausts og andagift, verður bitinn alltof stór og ekkert Heimlich-tak mun bjarga þeim.

Grindavík-Þór Þorlákshöfn
Suðurstrandaslagurinn verður klárlega andstæða Reykjavíkurslagsins. Þarna mætast lið sem eru frekar jöfn að getu og verður leikurinn án efa mjög spennandi og dramatískur. Rétt eins og með grannaslaginn hjá hinu kyninu skiptir andlegi þátturinn mestu í þessum leik. Þar held ég að liðin séu nokkuð á pari en í mínum huga mun reynsla Grindavíkur vega þyngra. Bræðurnir Ólafssynir eru ekki bara sjóaðir í þessu heldur eru þeir einnig með ákveðinn hroka sem gæti gert gæfumuninn og til að bakka það viðhorf upp er liðið einnig með Dag Kár Jónsson, Ómar Sævarsson og Lewis Clinch. Eftir að hafa sagt þetta vil ég hinsvegar negla þann varnagla sem er formið á Þórsliðinu; þrátt fyrir tapið gegn KR í síðustu umferð deildarinnar þá hefur liðið verið að spila frábærlega undanfarin misseri og alveg ljóst að mín spá er undir byssukjafti, líkt og með kvennaleik Snæfells og Skallagríms. Dagsformið skiptir öllu og ljóst að lið með Tobin Carberry, Grétar Erlendsson, Maciej Baginski, Ólaf Helga Jónsson, Halldór Garðar Hermannson og Ragnar Örn Bragason getur unnið stórsigur í þessum leik en þrátt fyrir það er tilfinningin sú að Grindavík vinni. Á pappír finnst mér Þórsarar með betri hóp en það er innri röddin sem ræður; Grindavík vs. KR í Bikarúrslitum þetta árið!

Bikardagskráin

Maltbikarinn – Sturla Stígsson
Maltbikarinn – Hildur Sig
Maltbikarinn – Viðar Örn
Maltbikarinn – Siggi Hjörleifs
Maltbikarinn – Örvar Þór Kristjánsson
Maltbikarinn – Björn Einarsson
Maltbikarinn – Hörður Unnsteinsson
Maltbikarinn – Sævar Sævarsson
Maltbikarinn – Karl West Karlsson