Skallagrímur vann áðan sinn níunda deildarleik í röð í Domino´s-deild kvenna með 60-73 sigri á Njarðvík í Ljónagryfjunni. Fátt ef nokkuð virðist stöðva Borgnesinga þessi dægrin en Fjósakonur líta vel út því þær voru við stýrið í dag, unnu leikinn þrátt fyrir að hafa átt mun betri daga sem lið upp á síðkastið. Eins og einhver sagði, það er styrkleikamerki að vinna líka á „off-dögunum“ sínum. Njarðvíkingar áttu fína spretti í dag en 3-30 í þristum og ónógar árásir á körfu gestanna voru meðal hluta sem reyndust Njarðvíkurkonum dýrkeyptir.

Topplið Skallagríms byrjaði betur í Ljónagryfjunni með Tillman í fínum gír. Borgnesingar komust í 8-17 þar sem Linda Þórdís gerði sex af fyrstu átta stigum heimakvenna. Carmen Tyson-Thomas tók fljótlega við sér og með átta stiga rispu frá henni náðu Njarðvíkingar að minnka muninn í 18-24 og þannig stóðu leikar eftir fyrsta leikhluta. Borgnesingar nokk grimmari í sínum aðgerðum og öll fimm þriggja stiga skot Njarðvíkur fyrstu tíu mínúturnar fundu ekki heimleið.

Borgnesingar héldu Njarðvíkingum án stiga fyrstu þrjár mínútur í öðrum leikhluta og eftir því sem seig á fyrri hálfleikinn seig brún heimakvenna jafnóðum því þær voru 0-15 í þristum í fyrri, líkast til einhverskonar vafasamt félagsmet hérna á ferðinni. Borgnesingar sigu hægt framúr og leiddu 26-38 í hálfleik.

Njarðvíkurkonur sem fyrr líta mikið til Carmen í stigaskorinu og hún var sú eina sem gerði einhverjar árásir að ráði á Skallagrímsteiginn. Samflokkskonur hennar verða að kveikja á perunni með að það gangi ekki að mæta til leiks og horfa á Carmen gera sitt og skjóta stöku þrist. Það gerir andstæðingnum afar einfalt fyrir í varnarleik sínum.

Carmen var með 17 stig og tók 12 fráköst fyrir Njarðvík í fyrri hálfleik en Tillman var með 16 stig hjá Skallagrím og 3 fráköst.

Njarðvíkingar mættu inn í síðari hálfleik með svæðisvörn og fengu fljótt þrist yfir sig í því varnarafbrigði en með hverri mínútunni þéttist vörn heimakvenna og gestirnir fóru að hiksta. Björk Gunnarsdóttir gerði loks fyrsta Njarðvíkurþristinn í leiknum þegar hún minnkaði muninn í 43-50 og staðan 47-54 að loknum þriðja hluta. Borgnesingar áttu erfitt uppdráttar á lokaspretti þriðja með Tillman utan vallar en hún kom starx inn á parketið í upphafi þess fjórða.

Með Tillman innan vallar var sóknarleikur gestanna mun dýpri og byrjuðu Borgnesingar fjórða leikhluta á 8-0 spretti og komust í 47-62. Njarðvíkingar áttu smá sprett en Skallagrímskonur (Kristrún, Tillman og Sigrún) settu þrjá þrista í röð og þar með var málið endanlega dautt. Verðskuldaður 60-73 sigur Skallagríms en frammistaða Njarðvíkurkvenna köflótt, góðu kaflarnir stuttir og einsleitni í sóknarleiknum þar sem 90% sóknanna fara í gegnum Carmen. Vitaskuld hittu Njarðvíkingar á dapran skotdag og það vó þungt og ætli liðið sér að gera raunhæfa atlögu að sæti í úrslitakeppninni þurfa stigin að fara að skila sér.

Tillman var stigahæst hjá Skallagrím með 22 stig, 6 stoðsendingar og 5 fráköst og þá voru þær Sigrún Sjöfn og Fanney Lind báðar með 13 stig og liðsvörn Skallanna flott. Hjá Njarðvík var Carmen með 35 stig og 26 fráköst og Linda Þórdís bætti við 11 stigum og 8 fráköstum.

Tölfræði leiksins
Myndasafn
 

nonni@karfan.is