Fjórir leikir fara fram í Dominos deild karla í kvöld í 16 umferð deildarinnar. Það fer að styttast í annan endan á deildarkeppninni og fer hver sigur að verða ansi dýrmætur í öllum baráttum deildarinnar.

 

Í Borgarnesi tekur Skallagrímur á móti Njarðvík en þeir grænklæddu eiga góðar minningar frá Borgarnesi en þar lyfti liðið íslandsmeistarabikarnum árið 2006. Njarðvík vann fyrri leik liðanna nokkuð örugglega þar sem þriggja stiga skyttur liðsins voru í miklu stuði. 

 

ÍRingar heimsækja Grindavík en liðin mættust í eftirminnilegri viðureign í 16 liða úrslitum Maltbikarsins þar sem mikil reikistefna varð á ritaraborðinu undir lokin. Ekki munaði miklu að uppúr myndi sjóða í fyrri viðureign liðanna í Seljaskóla og því morgunljóst að hitinn gæti orðið mikill þegar liðin mætast í kvöld.

 

Hlynur Bæringsson fær fyrrum lið sitt Snæfell í heimsókn en Snæfell leitar enn að sínum fyrsta sigri en Stjarnan getur komist í toppsætið með sigri. Keflavík ferðast svo til Sauðárkróks en liðin mættust einnig í átta liða úrslitum íslandsmótsins í fyrra og þekkja keflvíkingar ferðalagið því vel. 

 

Tveir leikir fara fram í 1. deild karla. ÍA og Hamar eru í mikilli baráttu um síðasta sætið í úrslitakeppni deildarinnar og því stórleikur. 

Dominos deild karla:

 

Skallagrímur – Njarðvík kl 19:15
 

Grindavík – ÍR kl 19:15 (Í beinni á stöð 2 sport) 
 

Stjarnan – Snæfell kl 19:15
 

Tindastóll – Keflavík kl 19:15 (í beinni á Tindastóll TV)
 

 

1. deild karla.

Höttur – FSu kl 18:30

 

ÍA – Hamar kl 19:15 
 

 

Mynd / Bára Dröfn