KR sigraði Val í undanúrslitum Maltbikarkeppninnar með 72 stigum gegn 67. Það verða því þeir sem að mæta annað hvort Þór eða Grindavík í úrslitaleik um bikarinn komandi laugardag.

 

 

Kjarninn

Í dag mættu ríkjandi deildar, Íslands og bikarmeistarar KR virkilega spræku liði Vals. Allt frá fyrstu mínútu var það ljóst að þeir myndu þurfa að hafa virkilega fyrir hlutunum. Liðin skiptust á að hafa forystuna í leiknum, voru með forystuna til skiptis í 11 skipti í leiknum. 

 

Fyrri hálfleikurinn var jafn. Fyrst var það KR sem að tókst að komast í forystu, sem Valur nær svo að jafna og loks komast yfir fyrir lok fyrsta leikhlutans, 22-20. Í öðrum leikhlutanum nær KR svo aaftur að komast áður en að fyrir lok hálfleiksins Valur jafnar leikinn aftur. Þegar að liðin héldu til búningsherbergja í hálfleik var staðan jöfn, 36-36.

 

Það voru erlendir leikmenn liðanna sem að voru atkvæðamestir í þessum fyrri hálfleik, Urald King með 14 stig og 4 fráköst fyrir Val og Philip Alawoya 10 stig og 10 fráköst fyrir KR.

 

 

Í byrjun seinni hálfleiksins fer KR svo aftur af stað, ná að byggja upp 7 stiga forystu á þessum fyrstu mínútum 3. leikhlutans. Valsarar voru þó fljótir að ranka við sér, ná svo að komast yfir með laglegu þriggja stiga skoti Austins Magnús Bracey þegar að leikhlutinn er hálfnaður, 48-47. Ofan á þetta ná þeir svo að byggja og fara með 4 stiga forystu til lokaleikhlutans, 54-50.

 

Í lokaleikhlutanum leiðir Valur svo bróðurpartinn, en þegar um 5 min eru eftir nær KR þó að vinna muninn niður og jafna leikinn aftur, 60-60. Leikurinn er svo jafn og spennandi allt fram til lokamínútunnar.

 

Skotið

Þegar 55 sekúndur voru eftir af leiknum, í stöðunni 62-64, neglir Pavel Ermolinski niður risastórum þrist fyrir KR. Kemur KR í, allavegana, tveggja sókna forystu. Það var eiginlega of mikið fyrir jafn reynslumikið lið og KR býr yfir. Fór svo að lokum að KR sigraði leikinn 72-67. Vel gert hjá Pavel að taka þetta skot þrátt fyrir að hafa verið 0 af 5 tilraunum fyrir utan þriggja stiga línuna fyrir það í leiknum. 

 

Tölfræðin lýgur

Vissulega er skiptir það öllu máli að vera með forystuna þegar að leikurinn endar, en það var Valur sem leiddi lungað af leiknum, þrátt fyrir að hafa tapað. Voru yfir í 20:35 mínútur á móti 18:50 hjá KR.

 

Hressir Hlíðarendapiltar

Fyrir leik hefði maður haldið að það væri umtalsverður getu og reynslumunur á liðunum tveimur. Það leit þó alls ekki þannig út. Á leið sinni í Höllina fóru þeir í gegnum 3 úrvalsdeildarlið og í dag sönnuðu þeir það svo sannarlega að það var engin heppni. Frábærir báðumegin á vellinum. Bigir Björn Pétursson, Illugi Auðunsson, Austin Magnús, Benedikt Blöndal ásamt erlendum leikmanni liðsins, Urald King og fleirum, stóðu sig með hreinni prýði í þessum leik. Það ætti ekki að koma neinum á óvart ef þó Valur kæmi upp úr fyrstu deildinni þetta tímabilið og næði að vinna nokkra leiki á næsta tímabili.

 

 

 

Ósannfærandi meistaraefni

KR liðið saknaði fyrirliða síns, Brynjars Þórs Björnssonar, alveg svakalega í dag. Aðrir lykilleikmenn liðsins virtust heillum horfnir sóknarlega. Fyrir utan Philip, skoraði restin af byrjunarliði þeirra 10 körfur í 41 tilraun.

 

Hetjan

Philip Alawoya var ljós í myrkrinu fyrir hálf týnt lið KR í dag. Skoraði 20 stig og tók 20 fráköst á þeim 35 mínútum sem hann spilaði.

 

Tölfræði leiks

Myndasafn #1

Myndasafn #2

 

 

 

Umfjöllun / Davíð Eldur

Myndir / Bára Dröfn og Ólafur Þór

Viðtöl / Ólafur Þór