Martin Hermannsson leikmaður Charleville Méziéres var á dögunum valinn í úrvalslið fyrri hluta tímabilsins í frönsku Pro B deildinni eftir frammistöðu sína með liðinu. Það var franska BeBasket síðan sem stóð fyrir valinu og er Martin fyrstur á lista.

 

Á síðunni segir að Martin hafi komið vel inní deildina eftir tvö ár í háskólaboltanum í Bandaríkjunum. Hann sé góður skorari sem búi til mikið fyrir liðsfélaga sína. Martin samdi við Charleville síðasta sumar en BeBasket gerir ekki ráð fyrir því að hann verði lengi í deildinni miðað við frammistöðu sína á gólfinu. 

 

Martin er með 17,9 stig, 4,2 fráköst og 6 stoðsendingar á 33 mínútum að meðaltali í vetur en Charleville er í þriðja sæti deildarinnar þessa dagana. Næsta sumar mun hann leika með íslenska landsliðinu á Eurobasket 2017 og því gleðitíðindi að Martin sé að standa sig vel með félagsliðinu.

 

Ásamt Martin er íslandsvinurinn Aaron Broussard í úrvalsliðinu en hann varð íslandsmeistari með Grindavík árið 2013. Hann var þá valinn besti leikmaður úrslitakeppninar eftir eftirminnilegt einvígi við Stjörnunna. Síðan þá hefur hann gert frábæra hluti í frönsku Pro B deildinni. 

 

 

Mynd / Etoile-charleville.fr