Keflavík sigraði Hauka í undanúrslitum Maltbikarkeppninnar með 82 stigum gegn 67. Keflavík mætir því sigurvegara viðureignar Snæfells og Skallagríms í úrslitaleik á laugardaginn, en hinn undanúrslitaleikurinn er kl. 20:00 í kvöld.

 

Fyrir leik

Miðað við stöðu liðanna í deildinni kannski frekar gert ráð fyrir sigri Keflavíkur í kvöld. Haukar í næst neðsta sæti deildarinnar á meðan að Keflavík hefur verið að berjast við toppinn allt tímabilið. Haukar þó verið að sækja í sig veðrið síðustu vikur og þá sérstaklega eftir að þær fengu Nashika Williams til liðs við sig. Síðasti leikur liðanna fyrir nokkrum vikum var spennandi allt fram til síðustu sekúndu, en hann unnu Keflavík með 3 stigum.

 

Ung lið

Liðin tvö sem mættust í þessari fyrri undanúrslitaviðureign bæði að miklu leyti byggð upp af uppöldum heimastúlkum. Frekar ungum líka. 9 leikmenn Keflavíkur leika einnig úrslitaleik með unglingaflokki félagsins gegn 10 leikmönnum hjá Haukum sem leika bæði með meistaraflokk og unglingaflokk þessa helgina.

 

 

 

Hörkuleikur

Það var kraftur í Haukunum í byrjun. Vörn Keflavíkur virtist ekki vera mætt til leiks í upphafi. Þó að auðvitað eigi lið að forðast það að safna villum, fékk lið Keflavíkur ekki dæmt á sig eina einustu í þessum fyrsta leikhluta. Sem segir helling um hversu mikinn ákafa vantaði þeim megin á vellinum hjá þeim. Undir lok hlutans fara þær þó að taka við sér, Haukar fara þó með 2 stiga forystu frá hlutanum, 18-20.

 

Í öðrum leikhlutanum lætur Keflavík kné fylgja kviði og ná að jafna leikinn með fyrstu körfu 2. leikhlutans. Undir lok fyrri hálfleiksins ná þær svo að byggja sér upp svolitla forystu, fara með 10 stig til búningsherbergja í hálfleik, 45-35.

 

Haukar byrjuðu seinni hálfleikinn betur, koma muninum niður í 6 stig þegar um 5 min eru liðnar af 3. leikhlutanum. Þá fær Rósa Björk Pétursdóttir sína 4. villu og þarf þar af leiðandi að setjast á bekkinn. Haukar ná þó enn að halda í við Keflavík í þessum leikhluta, en hann endar 59-52 fyrir Keflavík.

 

Þáttaskil

Þegar um 2 mínútur eru liðnar af lokaleikhlutanum er munur Keflavíkur kominn niður í 4 stig, 61-57 og í raun og verunni allur möguleiki enn til staðar fyrir Hauka að ganga enn frekar á lagið og stela þessum leik. Þá setja Keflavíkurstúlkur lásinn á varnarlega og gleypa lykilinn. Fara að pressa allan völlinn, stela boltum og setja skotin sín hinumegin á vellinum. Vinna þennan lokakafla leiksins 21-10, fara að lokum með 15 stiga sigur af hólmi 82-67.

 

 

Tölfræðin lýgur ekki

Haukar fengu ekki eitt einasta stig af bekknum sínum í kvöld á meðan að Keflavík fékk 26. Alltaf erfitt fyrir lið að sigra breiðan hóp Keflavíkur þegar að framlagið kemur frá jafn fáum. Sem áður var Birna Valgerður Benónýsdóttir stórkostleg af bekk Keflavíkur í kvöld, en hjálpin kom einnig úr fleiri áttum. Katla Rún Garðarsdóttir setti 3 þrista af bekknum fyrir þær í leiknum sem og setti Þóranna Kika Hodge-Carr 7 stig.

 

 

Hetjan

Emelía Ósk Gunnarsdóttir var frábær á lokametrunum fyrir Keflavík í kvöld. Varnarlega var hún best í annars mjög flottri vörn og sókn Keflavíkur þegar að það skipti mestu máli. Endar leikinn með 18 stig, 7 fráköst, 4 stoðsendingar og 3 stolna bolta á 37 mínútum spiluðum.

 

Tölfræði leiks

Myndasafn #1

Myndasafn#2

 

Umfjöllun / Davíð Eldur

Myndir / Ólafur Þór & Bára Dröfn

Viðtöl / Ólafur Þór

 

Viðtöl: