Aga-og úrskurðarnefnd KKÍ hefur sett Inga Þór Steinþórsson þjálfara Snæfells í eins leiks bann eftir fund nefndarinnar sem fram fór á þriðjudag. 

 

Ingi Þór var rekin úr húsi eftir að bekkur Snæfells fékk þrjár tæknivillur eða óíþróttamannslegar villur í tapinu gegn Skallagrím er liðin mættust í 18 umferð Dominos deildar karla síðasta sunnudagskvöld. Samkvæmt lögum aga- og úrskurðarnefndar skulu þjálfarar sem vikið er úr húsi fá sjálfkrafa eins leiks bann. 

 

Gunnlaugur Smárason aðstoðarþjálfari Snæfells mun því stýra liðinu líkt og í fjórða fjórðung og framlengingunni gegn Skallagrím. Snæfell er enn að leita að sigri á tímabilinu en voru grátlega nálægt því í fyrrnefndum leik gegn Skallagrím og mæta því líklega með blóð á tönnunum í leikinn gegn Grindavík í kvöld. 

 

Viktor Marínó Alexandersson leikmaður Snæfells setti mynd á Instagram í gær þar sem leikmenn liðsins höfðu sett sæti í stúkuna sem er sérmerkt Inga. Snæfell tekur á móti Grindavík kl 19:15 í Stykkishólmi í kvöld. Myndina frá Viktori má sjá hér að neðan:

 

 

Allt klárt fyrir @ingithor72 á morgun #korfubolti Snæfell-Grindavík 19:15

A post shared by Viktor Alexandersson (@viktorma) on

 

Einnig sendi aganefndin Eirík Guðmundsson leikmann Leiknis áminningu vegna háttsemi sinnar í leik Hrunamanna/Laugdæla og Leiknis í 2. deild meistaraflokks karla, sem leikinn var 16. febrúar 2017. Fleiri mál komu ekki á borð nefndarinnar þessa vikuna.

 

 

Mynd / Ómar Örn Ragnarsson – Ingi Þór rekinn úr húsi í Borgarnesi síðasta sunnudag