Þór tapaði fyrir KR, 91-95, í Þorlákshöfn í 16. umferð Dominos deildar karla. Eftir leikinn er KR því í efsta sæti deildarinnar, 2 stigum á undan Stjörnunni sem er í 2. sætinu. Þór er í 4.-5. sæti deildarinnar ásamt Grindavík.

 

Fyrir leikinn

Hvorugt þessara liða tapað leik eftir áramót, KR verið að koma sér í stöðuna efst í töflunni á meðan að Þór hefur klifrað aftur upp í 4. sæti deildarinnar. Liðin leikið í tvígang innbyrðis í vetur, bæði skiptin í Vesturbænum og í bæði skiptin fór Þór með sigur af hólmi.

 

Nýr leikmaður

KR ákvað fyrir ekki svo löngu að segja upp samning sínum við erlendan leikmann sinn, Cedrick Bowen. Í staðinn fengu þeir inn Philip Alawoya, sem að lék sinn fyrsta leik í kvöld. Philip var í byrjunarliðinu, en var vægast sagt slakur í fyrri hálfleik leiksins, skoraði ekki körfu. Hann girti sig þó vel í hálfleik og kom miklu betur út í seinni hálfleiknum. Lauk leik með 14 stig og 12 fráköst á tölfræðiskýrslunni.

 

 

Ískaldir

Leikmenn beggja liða voru ískaldir fyrir utan þriggja stiga línuna í fyrri hálfleik leiksins. Af 37 skotum í heildina rötuðu aðeins 8 rétta leið, með 22% nýtingu. Í seinni hálfleiknum tóku liðin ekki jafn mörg þriggja stiga skot, en náðu þó aðeins að laga nýtinguna, endaði í 21/66, eða í 32% nýtingu.

 

Kjarninn

KR byrjaði leikinn mun betur en heimamenn. Þórsarar voru þó snöggir að svara og voru komnir með forystuna í byrjun annars leikhlutans. Undir lok fyrri hálfleiksins létu þeir svo kné fylgja kviði og fóru með 8 stiga forystu til búningsherbergja í hálfleik, 46-38.

 

Í seinni hálfleik leiksins náðu gestirnir, hægt en örugglega, að vinna niður forskot Þórs. Ná loks forystunni aftur þegar 2 mínútur voru eftir af 3. leikhlutanum, 63-64. Í fjórða leikhlutanum, sem var jafn og spennandi, nær KR svo einu góðu áhlaupi sem að Þór nær ekki almennilega að svara. Þrátt fyrir að hafa reynt hetjulega undir lokin. 

 

Þáttaskil

Fram að lokamínútunum höfðu liðin skipst í nokkur skipti á að hafa forystuna í leiknum. Leikurinn er í járnum í fjórða leikhlutanum þangað til um það bil fjórar mínútur voru eftir. Þá tekur KR 8-0 áhlaup á heimamenn sem að þeir ná ekki að vinna niður. Endar með 91-95 sigri KR. Þó, eins og leikurinn hafði verið fram að þessu, hefðu heimamenn líklega náð að jafna eða komast yfir aftur hefði leikurinn verið 2-3 mínútum lengri.

 

Hetjan

Leikmaður KR, Pavel Ermolinski, var flottur fyrir sína menn í kvöld. Á 33 mínútum spiluðum skoraði hann 18 stig, tók 10 fráköst, gaf 6 stoðsendingar og stal 3 boltum.

 

 

 

Tölfræði leiks

Myndasafn

 

Umfjöllun / Davíð Eldur

Myndir / Davíð Þór Guðlaugsson