Íslands- og bikarmeistarar KR tylltu sér á topp Domino´s-deildar karla í lokaleik 19. umferðar með æsispennandi sigri á Njarðvíkingum. Lokatölur 80-81 KR í vil í miklum slag sem réðist ekki fyrr en á lokasekúndum leiksins. Enn ein mögnuð rimma þessara liða að baki og nú komu KR-ingar fram hefndum eftir að Njarðvíkingar hirtu af þeim tvö stig í DHL-Höllinni fyrr á tímabilinu. PJ Alawoya var stigahæstur í liði KR í kvöld með 28 stig og 9 fráköst en hjá Njarðvíkingum var Logi Gunnarsson með 20 stig og 6 stoðsendingar.

Eftir sigurinn í kvöld er KR með 30 stig á toppi deildarinnar en Njarðvíkingar í 9. sæti og í augnablikinu utan úrslitakeppninnar. Alls sex stig eru í pottinum það sem eftir lifir deildarkeppninnar og bæði lið í ótrúlega spennandi baráttu þó nokkuð sé á milli þeirra í töflunni. Deildin hefur reyndar sýnt að það geta allir unnið alla og lokaumferðirnar munu markast af því svo einn mest spennandi lokasprettur deildarkeppninnar hin síðari ár er kominn í fullan „swing.“

KR mætti til leiks í kvöld án Sigurðar Þorvaldssonar sem var fjarverandi vegna meiðsla en Sigurður sagði við Karfan.is að stefnan væri að því að vera mættur aftur í búning strax í næstu umferð.

Rétt eins og utandyra var einhver lægð í mönnum á upphafsmínútum leiksins og fyrstu stigin voru ekki skráð til leiks fyrr en eftir tæpar þrjár mínútur! Þórir Guðmundur Þorbjarnarson var þar á ferð fyrir gestina en Vilhjálmur Theodór Jónsson kom heimamönnum á blað strax í næstu sókn. Það verður seint sagt að fyrsti leikhluti eða fyrri hálfleikur eins og hann leggur sig hafi verið fallegur.

Tvö dýrmæt stig voru að sjálfsögðu í húfi og menn voru með ofuráherslu á varnarleikinn og fyrir vikið var nokkuð um mislögð handtök á sóknarendanum. Njarðvíkingar leiddu 13-12 eftir fyrsta leikhluta en gestirnir jöfnuðu fljótt leikinn 21-21. Í lok annars leikhluta náðu heimamenn örlítilli forystu, Logi Gunnarsson skellti niður sínum fyrsta þrist í leiknum í fimmtu tilraun er hann kom Njarðvík í 30-27 og Njarðvíkingar leiddu svo 39-35 í hálfleik. KR minnkaði muninn í 4 stig í lokasókninni eftir myndarlegt vagg og fallega veltu hjá þeim Pavel og Vilhjálmi Kára þar sem sá síðarnefndi gerði lokastig fyrri hálfleiks um leið og hann rann sitt skeið.

Logi Gunnarsson og Myron Dempsey voru báðir með 10 stig í hálfleik hjá Njarðvík en PJ Alawoya var með 14 stig og 6 fráköst í liði KR.

Njarðvíkingar voru fyrri úr rásblokkunum í síðari hálfleik þegar Björn Kristjánsson sendi langdrægan þrist yfir gömlu liðsfélagana í KR og kom heimamönnum í 42-35. Vörn heimamanna var þétt og skoraði KR aðeins sex stig á fyrstu sex mínútum þriðja leikhluta! Njarðvíkingar komust í 51-41 en þá tók Pavel Ermolinskij til sinna ráða í röðum gestanna og skoraði sjö stig fyrir röndótta á skömmum tíma og minnkaði muninn í 52-48. Snöggtum síðar komst KR í 53-54 en Jón Arnór Sverrisson lokaði þriðja leikhluta fyrir Njarðvík með þrist og heimamenn leiddu því 56-54 fyrir lokasprettinn.

Í fjórða leikhluta náðu gestirnir úr Vesturbænum smá undirtökum, PJ Alawoya fékk nokkur góð „lúkk“ á blokkinni og skilaði niður góðum stigum og Þórir Þorbjarnar virtist vera að fara langt með leikinn þegar hann kom KR í 71-77 með þriggja stiga körfu og rétt liðlega þrjár mínútur til leiksloka. Heimamenn voru ekki af baki dottnir og minnkaði Logi Gunnarsson muninn í 78-79 með þremur vítaskotum eftir að brotið var á honum í þriggja stiga skoti.

Á ýmsu gekk á lokasprettinum, mönnum voru mislagðar hendur þar sem reynslubolti á borð við Jón Arnór Stefánsson var að gerast sekur um óvandaðar sendingar á erfiðum tíma leiksins og Darri Hilmarsson hélt eflaust að hann hefði klúðrað leiknum fyrir KR þegar hann missti boltann frá sér í sniðskoti og Njarðvík dæmdur boltinn þegar sjö sekúndur voru til leiksloka. Þar á undan hafði Viljálmur Theodór komið Njarðvík í 80-79 eftir flott spil með Jóhanni Árna svo nú voru Njarðvíkingar með pálmann í höndunum!

Eftir leikhlé fékk Njarðvík innkast á varnarhelmingi KR og það fór ekki betur en svo að KR-ingar komust inn í sendinguna og þar bætti Darri Hilmarsson upp fyrir „smjörfingurs-atvikið“ úr síðustu KR sókn. Hann kom boltanum á Jón Arnór og Njarðvíkingar brutu strax á honum. Jón með stáltaugar setti bæði vítin og kom KR í 80-81 með rúmar tvær sekúndur eftir á klukkunni og ekkert leikhlé til skiptanna hjá heimamönnum. Njarðvíkingar náðu að komast upp völlinn en náðu ekki skoti til að stela sigrinum og KR fagnaði því sigri í æsispennandi slag.

Njarðvík og KR halda því inn í keimlíka baráttu í næstu þremur umferðum, baráttu þar sem ekkert lið má misstíga sig en vissulega langt á milli í töflunni.

Tölfræði leiksins

Njarðvík-KR 80-81 (13-12, 26-23, 17-19, 24-27)

Njarðvík: Logi  Gunnarsson 20/6 stoðsendingar, Myron Dempsey 18/8 fráköst, Björn Kristjánsson 17/7 fráköst, Vilhjálmur Theodór Jónsson 10/7 fráköst, Johann Arni Olafsson 6/8 fráköst/6 stoðsendingar, Snjólfur Marel Stefánsson 4/7 fráköst, Jón Arnór Sverrisson 3, Jeremy Martez Atkinson 2, Gunnlaugur Sveinn Hafsteinsson 0, Hermann Ingi Harðarson 0, Adam Eiður Ásgeirsson 0, Gabríel Sindri Möller 0.
KR: Philip Alawoya 28/9 fráköst, Jón Arnór Stefánsson 15/9 fráköst, Pavel Ermolinskij 14/11 fráköst/11 stoðsendingar, Þórir Guðmundur Þorbjarnarson 11, Darri Hilmarsson 6, Brynjar Þór Björnsson 5, Vilhjálmur Kári Jensson 2, Karvel Ágúst Schram 0, Orri Hilmarsson 0, Sigurður Á. Þorvaldsson 0, Arnór Hermannsson 0, Snorri Hrafnkelsson 0.
Áhorfendur: 400

Byrjunarliðin:

Njarðvík: Björn Kristjánsson, Logi Gunnarsson, Jóhann Árni Ólafsson, Jeremy Atkinson og Vilhjálmur Theodór Jónsson.
KR: Pavel Ermolinskij, Þórir Guðmundur Þorbjarnarson, Jón Arnór Stefánsson, Darri Hilmarsson og Philip Alawoya.

nonni@karfan.is