Þórsarar frá Akureyri mættu í Hertz-Hellinn til þess að etja kappi við heimamenn í ÍR í kvöld. Bæði liðin þurftu nauðsynlega á sigri að halda til að styrkja stöðu sína í deildinni fyrir úrslitakeppni og þar sem Þórsarar unnu fyrri leikinn með 16 stigum þá þurftu Breiðhyltingar að vinna leikinn með meiri mun til þess að sigra innbyrðisviðureignina við Þórsara, sem gæti skipt gríðarlegu máli þegar stigin verða talin í vor.

 

Eftir örfáar mínutur af fyrsta leikhluta þá tóku ÍR-ingar við sér, skelltu í lás í vörninni og Þórsarar misstu hausinn næstum um leið. Staðan eftir fyrsta leikhluta 25-18. Í öðrum leikhluta var aðeins meira jafnræði með liðunum, en samt þurftu Þórsarar að hafa gífurlega fyrir hlutunum á meðan leikmenn ÍR voru að klikka úr opnum skotum, 10 stiga munur í hálfleik 43-33. Strax í byrjun seinni hálfleiks settu ÍR í fluggírinn, komust 20 stigum yfir og var þá staðan eftir þrjá hluta 75-53 og leik nokkurnveginn lokið. Munurinn hélst svo nálægt þessum 20 stigum allt til loka.

 

Stemmningin

Þetta er fyrsta ferð undirritaðs í Hertz-Hellinn í vetur og það má með sanni segja að stuðningsmenn ÍR liðsins hafi staðið undir væntingum. Öskruðu sig hása allan leikinn, dönsuðu, sungu og hoppuðu á pöllunum sem svignuðu undan látunum. Leikmenn liðsins nærðust á stemmningunni og keyrðu upp hraðann þegar þeir sáu veikleikamerki hjá Þórsurum, frábær leikur hjá bæði áhorfendum og leikmönnum ÍR-inga.

 

Háloftaveisla

Tenging Matthíasar Orra við Quincy Hankins-Cole bar nokkrum sinnum í kvöld glæsilegan ávöxt í formi alley-oop troðslna. Á tímabili þá virtist Matthías bara geta hent boltanum einhvers staðar í nágrenni við hringinn og Quincy fór og sótti hann. Þórsarar réðu illa(ekki) við háar boltahindranir sem að Quincy setti upp fyrir Matthías, þessar hindranir komu Tryggva Hlinasyni hvað eftir annað í vond mál langt frá körfunni og var eftirleikurinn auðveldur fyrir háloftafuglinn Cole.  

 

Andleysi

Þórsarar mættu einfaldlega ekki tilbúnir til leiks í dag, lykilmenn liðsins brugðust og liðið í heild virtist ekki ráða við stemmningu og ákefð ÍR-inga sem voru gríðarlega grimmir í bæði vörn og sókn. Fyrsti leikhluti var ekki hálfnaður þegar dómarar leiksins voru byrjaðir að aðvara Þórsara fyrir munnsöfnuð og sífelldar kvartanir. Þórsurum til varnar var gikkfingur dómara leiksins ekkert sérstaklega stöðugur og þeir voru fljótir að hóta tæknivillum. Norðanmenn verða að læra að láta ekki stemmninguna fara svona í höfuðið á sér, sér í lagi ef þeim tekst að komast í úrslitakeppnina.

 

Yfirburðir

Matthías Orri Sigurðarson var í algerum sérflokki á vellinum í dag og gældi við þrennuna með 28 stig(11/21), 12 stoðsendingar, 9 fráköst og aðeins 1 tapaðan bolta. Hann stjórnaði hraðanum vel og var duglegur að nýta sér veikleika í vörn Þórsara þegar þeir gáfust.

 

Tölfræði leiksins

Myndasafn úr leik (Bára Dröfn)

 

Umfjöllun Sigurður Orri Kristjánsson

Myndir Bára Dröfn