Ívar Ásgrímsson þjálfari Hauka var þungur á brún og afskaplega ósáttur með frammistöðu sinna manna þegar Karfan.is náði tali af honum eftir tapið gegn ÍR í kvöld:

 

Það var eins og þið ættuð engan séns í kvöld?

 

Nei, þegar menn koma ekki tilbúnir og ekki tilbúnir til að leggja líf sitt að veði í svona leik þá veit ég ekki hvað er að. Það var bara raunin í kvöld og menn voru ekki tilbúnir til að leggja sig fram. Varnarlega vorum við skelfilegir og þeir ýttu okkur út úr öllu og lömdu okkur og börðu og við bökkuðum bara frá þeim. Við þorðum ekki að keyra á þá og þegar við keyrðum inn í vörnina var það ekki til að skora, frekar til að tapa boltanum! Við vorum með 24 tapaða bolta og menn voru bara kjarklausir.

 

Það var mín tilfinning að það vantaði alla gleði í liðið og eins og enginn nennti að spila körfubolta í kvöld.

 

Jájá, í þessum leik var það bara þannig og menn eru að leggja miklu meira á sig í æfingum en þeir gerðu í leiknum! Það er alveg ótrúlegt. Það er búið að vera góð barátta á æfingum og menn að leggja sig fram, barátta og jákvæðni og svo komum við hingað og þá er bara eins og menn séu að spila æfingaleik! Mín tilfinning var sú að það væri eins og þessi leikur skipti okkur engu máli, að við værum ekki að spila fyrir lífi okkar hérna heldur að við værum hérna bara að spila einhvern æfingaleik fyrir tímabil.

 

Cedrick Bowen er genginn til liðs við ykkur en mér fannst ekki koma mikið út úr honum.

 

Neinei, ekki frekar honum en öðrum. Sherrod var líka í basli, spilaði slaka vörn og var slakur sóknarlega líka, setti einhverja þrista en var að tapa mörgum boltum. Flæðið var slæmt og við vorum bæði með hann og Emil í rugli  – Emil var ekki með í þessum leik. Haukur hittir ekki neitt og þetta eru þrír byrjunarliðsmenn hjá okkur – við fáum ekkert frá þessum mönnum og það er bara vandamálið.

 

Viðtal / Kári Viðarsson